Segir Kínverja ætla að vopna Rússa

Anthony Blinken á öryggisráðstefnunni í Munchen.
Anthony Blinken á öryggisráðstefnunni í Munchen. AFP

Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, segir kínversk stjórnvöld hafa í hyggju að veita Rússum aukinn vopnakost til að beita í innrás þeirra í Úkraínu. 

Þetta sagði Blinken í viðtali við CBS-sjónvarpsstöðina en þar hélt hann því einnig fram að Kínverjar væru nú þegar að veita Rússum óbeinan stuðning í stríðsaðgerðum þeirra síðarnefndu.

Kínverjar segjast enga beiðni hafa fengið

Blinken er staddur í Munchen á fjölsóttri öryggisráðstefnu. Hann sagði þar að þessar fyrirætlanir geti haft alvarlegar afleiðingar í för með sér fyrir Kínverja en sambandi þeirra við Bandaríkin hefur hrakað síðustu ár.

Í frétt BBC um málið segir að kínversk stjórnvöld þvertaki fyrir að beiðnir hafi borist frá Rússum um hergagnastuðning. Kína er eitt af þeim ríkjum sem hefur enn ekki fordæmt innrás Rússa í Úkraínu. 

Samband Bandaríkjanna og Kína myndi bíða enn frekari hnekki ef fyrirætlanir þær sem Blinken vísar til reynast á rökum reistar. Samskiptin eru sérstaklega spennuþrungin eftir að bandarísk stjórnvöld skutu niður loftbelg sem þau halda fram að hafi komið frá kínversku leyniþjónustunni. 

mbl.is