Fórnarlömb hryðjuverkanna 11. september árið 2001 í Bandaríkjunum eiga ekki rétt á 3,5 milljarða dollara sjóði Seðlabanka Afganistan.
Þetta úrskurðaði bandarískur dómari en um er að ræða um 507 milljarða íslenskra króna.
BBC greinir frá því að lögmenn sem sóttu málið hafi talið að þetta fjármagn gæti dugað fyrir bótum samkvæmt úrskurðum sem höfðu fallið á stjórn talíbana í Afghanistan.
Er árásirnar áttu sér stað höfðu talíbanar leyft vígamönnum al-Qaeda sem stóðu að baki árásinni að starfa í Afganistan.
2.977 einstaklingar létust í árásunum.
George Daniels, dómari í málinu, sagði að „stjórnarskráin hamli“ sér að samþykkja skaðabæturnar, sem eru frystar í Bandaríkjunum, þar sem að ákvörðunin myndi samþykkja að stjórn talíbana í Afganistan væri lögmæt.
Hann nefndi að stjórn Joe Biden Bandaríkjaforseti viðurkenndi ekki yfirráð talíbana, og því hafi bandarískir dómstólar ekki heimild til þess að gera það.
Daniels sagði þó í 30 blaðsíðna úrskurðinum að talíbanar verði að bera ábyrgð á árásunum og greiða skaðabætur.
Talíbönum var vikið úr stjórn árið 2001 af Bandaríkjamönnum en náðu aftur yfirráðum árið 2021 er vestrænar hersveitir drógu sig frá ríkinu.
Lee Wolosky, einn af lögmönnunum sem stóðu að baki málsókninni, sagði að um ranga niðurstöðu væri að ræða og að fleiri en tíu þúsund fórnarlömb árásanna ættu rétt á skaðabótum frá talíbönum.