Ýja að forsetaframboði

Jill og Joe Biden, foretahjón Bandaríkjanna.
Jill og Joe Biden, foretahjón Bandaríkjanna. AFP/Nicolas Asfouri

Joe og Jill Biden, forsetahjón Bandaríkjanna, ýjuðu að því að Joe Biden ætli að bjóða sig aftur fram til forseta. Næstu forsetakosningar verða í nóvember á næsta ári. 

„Áform mín frá upphafi hafa verið að bjóða mig aftur fram. En það er margt annað sem við þurfum að klára á þessu kjörtímabili áður en ég get hafið kosningabaráttu,“ sagði Biden í viðtali á ABC News.

Biden er áttræður og þar með elsti starfandi forseti í sögu Bandaríkjanna. Margir hafa velt fyrir sér aldri forsetans, allt frá því hann hóf kosningabaráttu sína árið 2020. 

Spurður hvort að aldur hans hefði áhrif á ákvörðunina að bjóða sig aftur fram svaraði Biden neitandi. 

„En það er skiljanlegt að fólk velti aldri mínum fyrir sér. Það er algjörlega skiljanlegt. Það eina sem ég get sagt er, fylgist með mér,“ sagði Biden en hann yrði 86 ára að forsetatíð sinni lokinni ef hann verður endurkjörinn. 

Hvar og hvenær 

Jill Biden forsetafrú er nú stödd í Kenýa og í viðtali við AP-fréttaveituna sagði hún að það eina sem ætti eftir væri að ákvæða væri hvenær og hvar eiginmaður hennar myndi tilkynna framboðið.

„Hann er ekki búinn. Hann hefur ekki lokið því sem hann byrjaði á og það er það sem skiptir mál,“ sagði hún.  

Þó nokkrir hafa tilkynnt forsetaframboð sitt. Þar á meðal Donald Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseti, Nikki Haley, fyrrverandi ríkisstjóri Suður-Karólínu og Vivek Ramaswamy tæknifrumkvöðull. 

mbl.is