Murdoch kemur ábyrgðinni yfir á fréttamenn

Rupert Murdoch hefurr viðurkennt að hann hefði átt að grípa …
Rupert Murdoch hefurr viðurkennt að hann hefði átt að grípa inn í. AFP/ADRIAN SANCHEZ-GONZALEZ, MICHAEL M. SANTIAGO

Fjölmiðlamaðurinn Rupert Murdoch hefur viðurkennt að fréttamenn sjónvarpsstöðvarinnar Fox News hafi kynt undir samsæriskenningum sem sneru að því að kosningasvindl hafi átt sér stað í Bandarísku forsetakosningunum árið 2020.

Murdoch hefur þó neitað því að fyrirtækið í heild sinni, þar sem hann er stjórnarformaður, hafi dreift kenningunum. Það hafi einskorðast við ákveðna fréttamenn. Þetta kom fram í gögnum frá skýrslutöku hans vegna kæru sem Dominion Voting Systems (DVS) hefur lagt fram gegn Fox News vegna ásakana um kosningasvindl. DVS framleiðir og selur kosningavélar og -hugbúnað sem notaður er í Bandaríkjunum og Kanada.

CNN greinir frá þessu.

Fox News segir DVS ráðast gegn fyrsta viðauka stjórnarskrár Bandaríkjanna um málfrelsi.

„Þessi tilraun til þess að úthúða Fox fyrir að greina frá og tala um ásakanir sitjandi forseta Bandaríkjanna [um kosningasvindl] ætti að viðurkenna sem beina árás á fyrsta viðaukann,“ er haft eftir tilkynningu frá Fox News vegna málsins. Þá sé vafasamt að halda því fram að yfirmenn hjá Fox hafi tengst birtingu efnis um kosningalygar.

Hljóð og mynd fór ekki saman

Til þess að styðja mál sitt hefur DVS skrásett tölvupósta og smáskilaboð sem fréttamenn Fox News sendu sín á milli þegar umræðan um kosningasvindl stóð sem hæst. Í skilaboðunum megi sjá fréttamennina gera grín að ásökunum Donald Trump, fyrrverandi forseta Bandaríkjanna og stuðningsmanna hans.

CNN greinir einnig frá því að Murdoch hafi viðurkennt að það hafi verið rangt að leyfa samsæriskenningasinnum að fá pláss á skjám landsmanna. Það hafi dregið að mikið áhorf og þegar öllu væri á botninn hvolft, snúist um pening. Hann hefði eftir á að hyggja, átt að grípa inn í. 

Þá hafi Murdoch ítrekað verið varaður við þeim afleiðingum sem það að ýta undir sögusagnir um kosningasvindl gæti haft í för með sér. Margir hafi trúað ásökunum forsetans fyrrverandi vegna þess að þau væru að fá upplýsingarnar frá miðli sem áhorfendur héldu að þau gætu treyst.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert