Ræddu saman í fyrsta sinn síðan stríðið hófst

Fyrir aftan Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, (fremst fyrir miðju) má …
Fyrir aftan Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, (fremst fyrir miðju) má sjá Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna. AFP/Olivier Douliery/Pool

Utanríkisráðherrar Bandaríkjanna og Rússlands ræddu stuttlega saman í Nýju Delí á Indlandi í dag, í fyrsta sinn síðan stríðið í Úkraínu hófst fyrir rúmlega ári síðan. 

Antony Blinken og Sergei Lavrov voru báðir staddir á fundi G20-ríkjanna. Síðast voru ráðherrarnir í sama herbergi á fundi G20-ríkjanna á Balí í Indónesíu í júlí, en þá töluðust þeir ekki við. 

Blinken sagði Lavrov að Bandaríkjamenn myndu áfram styðja Úkraínumenn og þá kallaði hann eftir því að Rússar létu Bandaríkjamanninn Paul Whelan lausan úr haldi. Þeir ræddu saman í rúmar tíu mínútur.

Narenda Modi, forsætisráðherra Indlands, ávarpaði fundinn í dag.
Narenda Modi, forsætisráðherra Indlands, ávarpaði fundinn í dag. AFP/Olivier Douliery/Pool

Breytt fundinum í farsa

Utanríkisráðherrar G20-ríkjanna gáfu ekki út sameiginlega yfirlýsingu að fundi loknum og var það vegna andmæla sendinefndar Rússa. 

Lavrov sagði í ávarpi sínu á fundinum að vestræn ríki hefðu afvegaleitt fundinn með því að kenna Rússum um eigin mistök.

Þá bað hann gestgjafa fundarins afsökunar á hegðun vestrænna ríkja. Lavrov sagði ríkin hafa breytt fundinum í farsa. 

Í opnunarávarpi sínu hvatti Narenda Modi, forsætisráðherra Indlands, ráðherrana til þess að einblína ekki einungis á stríðið heldur komast meðal annars að samkomulagi um vanda fátækustu ríkja heims og lausnum á loftslagsvandanum.

Giorgia Meloni, forsætisráðherra Ítalíu, hvatti Indverja til að nýta fundinn í að binda enda á Úkraínustríðið. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert