Grunaðir um að selja Rússum tæknibúnað

Höfuðstöðvar bandaríska dómsmálaráðuneytisins í Washington.
Höfuðstöðvar bandaríska dómsmálaráðuneytisins í Washington. Ljósmynd/Wikipedia.org

Tvemenningar á sextugsaldri í Kansas í Bandaríkjunum gætu átt yfir höfði sér allt að 20 ára fangelsisdóma fyrir að selja Rússum háþróaðan tæknibúnað til notkunar í flugi án þess að gera nokkra grein fyrir búnaðinum á lögboðnum útflutningsskýrslum.

Eru mennirnir, Cyril Gregory Buyanovsky og Douglas Robertson, sem handteknir voru í gær, að sögn bandaríska dómsmálaráðuneytisins grunaðir um samsæri, fölsun og smygl sem saksóknarar segja hafa staðið frá árinu 2020.

Hafi þeir á tímabilinu frá nóvember 2020 til febrúar 2021 fengið hluti, af þeirri gerð sem þeir eru grunaðir um að hafa selt Rússum, senda til viðgerðar og hafi hlutirnir verið merktir rússneskri leyniþjónustustofnun við komu til Bandaríkjanna.

Sendu varninginn um önnur lönd

Til að dylja viðskipti sín eiga þeir Buyanovsky og Robertson að hafa sent varning sinn til Rússlands gegnum önnur lönd, svo sem Armeníu og Kýpur, til að dylja upprunann auk þess sem þeir hafi falsað sölukvittun þannig að lesa mætti af henni að kaupandi búnaðarins væri fyrirtæki í Þýskalandi.

Upp mun hafa komist um starfsemina þegar teymi á vegum bandaríska dómsmálaráðuneytisins, sem hefur eftirlit með brotum gegn viðskiptabanninu sem Rússland sætir nú, varð þess áskynja að grunuðu voru að senda búnað til Rússlands með viðkomu í öðrum löndum til að slá ryki í augu löggæslustofnana.

Reuters

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert