Hjólið algengasta farartækið í fjármálahverfinu

Notkun hjóla í fjármálahverfinu í London hefur aukist mikið undanfarin …
Notkun hjóla í fjármálahverfinu í London hefur aukist mikið undanfarin ár, en umferð bifreiða hefur að sama skapi minnkað. AFP/LUKE MACGREGOR

Hjólreiðafólk er nú um 40% af allri umferð á götum í fjármálahverfinu í London (e. City of London) yfir háannatíma og um 27% á öðrum tímum dagsins. Á sama tíma hefur umferð vélknúinna ökutækja dregist talsvert saman. Enn kjósa þó flestir að ferðast um hverfið fótgangandi. Þetta er meðal þess sem sjá má í skýrslu sem kynnt var fyrir samgönguráði fjármálahverfisins nýlega.

Talningin var gerð 23. nóvember, en veðrið þann dag var ekki upp á sitt besta í London.

Í umfjöllun Forbes kemur fram að umferð vélknúinna ökutækja sé nú um 80% af því sem hún var árið 2019 fyrir faraldurinn. Þá hefur gangandi einnig fækkað umtalsvert, þó það sé enn stærsti hópurinn. Er fjöldi þeirra aðeins 63% miðað við fjöldann fyrir faraldur.

Hjólið hefur hins vegar haldið velli og hefur hjólreiðafólki fjölgað um 2% frá því sem var fyrir faraldurinn. Með þessum breytingum er hjólreiðafólk nú um 27% af allri umferð á götum hverfisins á háönn, en einkabílar og leigubílar aðrir en hefðbundnir leigubílar (m.a. Uber og Lyft) telja fyrir um 26% umferðarinnar.

Hefðbundnir leigubílar eru um 15% af heildar umferð á götum fjármálahverfisins, minni flutningabílar um 17% og stærri flutningabílar um 4%. Hlutfall strætisvagna og rúta er um 5% og mótorhjóla 5%.

Samkvæmt umfjöllun Forbes segir að langtímaþróun á 12 stöðum í fjármálahverfinu sýni að umferð vélknúinna ökutækja hafi dregist mikið saman meðan umferð hjólandi hefur aukist mikið. Nemur aukningin frá árinu 1999 samtals 386%.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert