Skotinn í höfuðið og stofnaði stuðningshóp

Norðmenn voru harmi lostnir eftir atburðinn aðfaranótt 25. júní í …
Norðmenn voru harmi lostnir eftir atburðinn aðfaranótt 25. júní í fyrra og myndaðist blómahaf í miðborg Óslóar daginn eftir árásina. Ljósmynd/AFP/Hå­kon Mos­vold Lar­sen

Norðmaðurinn Espen Evjenth var einn þeirra rúmlega tuttugu sem særðust þegar hinn norsk-íranski Zaniar Matapour lét til skarar skríða á Oslo Pride-hátíðinni aðfaranótt 25. júní í fyrra, skaut tvo til bana og særði aðra með skotárás sinni.

Evjenth stóð á dansgólfinu á London Pub og man það eitt að skyndilega varð allt svart. Nú, átta mánuðum síðar, er hann enn í endurhæfingu en hefur náð sér að miklu leyti og stofnað stuðningshóp þeirra sem eiga um sárt að binda eftir voðaatburðinn sem kom eins og þruma úr heiðskíru lofti og varð til þess að aðstandendur Oslo Pride aflýstu allri lokahelgi hátíðarinnar.

„Ég óttast að einhvers staðar sé fólk sem ekki hefur fengið hjálp við að vinna úr þeim sálrænu áföllum sem þessi hryllingur orsakaði,“ segir Evjenth í samtali við norska ríkisútvarpið NRK og fær framtak hans byr undir báða vængi frá Inge Alexander Gjestvang, formanni FRI-samtakanna sem berjast fyrir réttindum hinsegin fólks.

Hafa rætt við 22. júlí-stuðningshópinn

„Áföll á borð við þetta taka sér bólfestu í líkamanum og kalla fram viðbrögð þegar ákveðinn tími er liðinn. Að fá sterkan stuðningshóp fyrir þá sem urðu fyrir áhrifum hryðjuverkaárásarinnar er mjög mikilvægt. Það sáum við eftir árásina 22. júlí [2011],“ segir Gjestvang.

Evjenth og nýi stuðningshópurinn hans hafa þegar komið á samtali við stuðningshópinn sem til varð eftir árásir Breiviks í júlí 2011 og segir Lisbeth Kristine Røyneland, formaður þess hóps, að Oslo Pride-hópnum hafi þegar verið ráðlagt að reyna að ná til sem flestra þeirra sem árásin í fyrra snerti með einhverjum hætti.

„Sé talsmaður eða  fjölmennur stuðningshópur til staðar auðveldar það að ná áheyrn stjórnvalda. Betur heyrist í þeim sem hafa rödd,“ segir Røyneland.

Evjenth segir mikinn lærdóm felast í því að hlusta á þá sem snortnir eru eftir svo alvarlegan atburð. „Ef til vill lærist okkur eitthvað sem getur hindrað að svona lagað gerist á ný,“ segir hann.

NRK

TV2

Blikk

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert