Ætlar sér að „snúa bátunum við“

Rishi Sunak, forsætisráðherra Bretlands.
Rishi Sunak, forsætisráðherra Bretlands. AFP

Rishi Sunak, forsætisráðherra Bretlands, hét því fyrr í dag að hann myndi stöðva straum ólöglegra innflytjenda til landsins, en fólkið fer á smábátum yfir Ermarsund.

Rúmlega 45.000 flóttamenn tóku land á ströndum Englands á síðasta ári, og hefur árleg aukning þeirra verið um 60% á ári frá 2018.

„Samkvæmt lagafrumvarpinu, sem verður afturvirkt til þriðjudags, munu allir sem koma ólöglega til Bretlands ekki geta sótt um hæli,“ sagði Sunak á blaðamannafundi. „Ef þú kemur hingað ólöglega muntu ekki get sótt um hæli. Þú munt ekki njóta góðs af nútímalegri vernd okkar gegn þrælahaldi. Þú getur ekki gert rangar kröfur um mannréttindi og þú getur ekki dvalið hérna lengur,“ sagði Sunak.

Verði teknir fastir og sendir úr landi

Sagði Sunak jafnframt að þeir sem kæmu ólöglega til landsins yrðu hnepptir í varðhald og sendir úr landi á nokkrum vikum. Yrðu viðkomandi þá annað hvort sendir til síns heimalands ef það væri öruggt, eða til öruggs þriðja lands eins og Rúanda. Þá yrði þeim sem hefði verið vísað á brott óheimilt að snúa aftur til Bretlands. 

Samkvæmt frumvarpinu fær innanríkisráðherra Bretlands þá lagalegu skyldu á sínar herðar að vísa öllum ólöglegum innflytjendum úr landi. „Núverandi staða er hvorki siðferðileg né sjálfbær. Hún getur ekki haldið áfram,“ sagði Sunak í samtali við breska götublaðið The Sun.

Sunak segir að núverandi staða væri hrikalega ósanngjörn gagnvart þeim sem þyrftu mest á hjálp að halda, en gætu ekki fengið hana þar sem hæliskerfið sé yfirbugað af fólki sem ferðast ólöglega yfir sundið.

Suella Braverman, innanríkisráðherra Bretlands, sagði á þingi að hún væri „fullviss um að þetta frumvarp samrýmist alþjóðlegum skuldbindingum“, þrátt fyrir að hafa viðurkennt í frétt Daily Telegraph að það „ýtti á mörk alþjóðaréttar“.

Rauði Krossinn og Amnesty ósátt

Baráttuhópar og breska stjórnarandstaðan segja að áætlunin sé ekki framkvæmanleg og geri varnarlausa flóttamenn að blórabögglum.

Christina Marriott, framkvæmdastjóri stefnumótunar hjá Breska Rauða krossinum, segir Bretland munu með þessu brjóta í bága við alþjóðasáttmála um hælisleitendur. „Við veltum því fyrir okkur hvort þú sért að flýja ofsóknir eða stríð, ef þú ert að flýja frá Afganistan eða Sýrlandi og óttast um líf þitt, hvernig ætlarðu að geta sótt um hæli í Bretlandi?“ sagði Marriott í viðtali við Sky News.

Steve Valdez-Symonds hjá Amnesty International sagði í yfirlýsingu að það væri „hrollvekjandi að sjá ráðherrana reyna að afnema mannréttindavernd fyrir hópa fólks sem þeir sjálfir hafa kosið sem blóraböggul fyrir eigin mistök“. Hann bætti við að fólk sem flýr ofsóknir og átök muni verða fyrir óbætanlegum skaða af þessum tillögum.

Þá sagði Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna að áætlanirnar myndu jafngilda því að bann yrði sett á allt hæli í Bretlandi og hvatti þess í stað til mannúðlegri lausna.

Fjöldi flóttamanna upp á tæpa þriðju þúsund hefur komið með bátum það sem af er þessu ári, oft hafa þeir endað á dýrum hótelum á kostnað skattgreiðenda og eru óafgreiddar umsóknir um hæli í Bretlandi nú rúmlega 160.000 talsins.

Nýja áætlunin myndi tímabundið flytja ólöglega innflytjendur inn í hermannaskála sem ekki eru lengur í notkun og einnig takmarka fjölda flóttamanna sem koma inn í landið á löglegan hátt.

Sunak segir að ólöglegir fólksflutningar séu „sameiginleg áskorun“ Bretlands og annarra Evrópulanda og að lönd um alla álfuna væru að skoða ný lög og ráðstafanir til þess að takast á við hana.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert