Bólusetningar hafnar í Sýrlandi

WHO og UNICEF standa nú að bólusetningarátaki í Sýrlandi. Þar …
WHO og UNICEF standa nú að bólusetningarátaki í Sýrlandi. Þar hefur um hríð verið kólerufaraldur og allt bendir til þess að hann versni í kjölfar hamfaranna. AFP

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) og Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna (UNICEF) hafa í dag hafið bólusetningarátak gegn kóleru á jarðskjálftasvæðunum í norðvesturhluta Sýrlands. Þetta gera samtökin í samstarfi við yfirvöld í landinu. 

Bólusetningarátakið er eitt af mörgum inngripum UNICEF og samstarfsaðila til að sporna gegn útbreiðslu kóleru á hamfarasvæðunum. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá UNICEF á Íslandi.

Tæp hundrað þúsund Sýrlendinga hafa verið á vergangi í norðvestanverðu landinu eftir jarðskjálftana mannskæðu sem urðu í byrjun febrúar.

Kólera er bráðsmitandi og stundum banvæn þarmasýking sem getur smitast m.a. með menguðu vatni. Við slæmar aðstæður eins og eftir náttúruhamfarir er hætta á að smitsjúkdómar á borð við kóleru breiðist hratt út.

Í jarðskjálftunum skemmdust innviðir víða um Sýrland, þar á meðal hafa vatns- og hreinlætiskerfi orðið fyrir tjóni. Því hefur hætta aukist á sjúkdómum sem smitast með vatni, kóleru þar á meðal.

Kólerufaraldri í Sýrlandi var lýst yfir í september árið 2022 en síðan þá hafa um 50 þúsund tilfelli verið tilkynnt í tveimur héruðum landsins, Idlib og Aleppo, og af þeim voru 18% í hjálparbúðum fyrir fólk á vergangi. Eftir jarðskjálftanna hafa 1.700 tilfelli verið tilkynnt.

Bólusetningarátakið mun ná til barna frá eins árs aldri, einkum þeirra sem búa á helstu hættusvæðum. 1400 bólusetningarteymi munu ganga á milli húsa í landinu og því er gert ráð fyrir að 1,7 milljónir bóluefnaskammta verði notaðir alls.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert