Johnson þarf að svara fyrir „Partygate“

Boris Johnson kveðst saklaus og mun svara spurningum þingnefndarinnar 22. …
Boris Johnson kveðst saklaus og mun svara spurningum þingnefndarinnar 22. mars. AFP

Boris Johnson, fyrrverandi forsætisráðherra Bretlands, mun í næstu viku sitja fyrir svörum breskrar þingnefndar sem mun fara fram á að Johnson svari því hvort hann hafi sagt ósatt í tengslum við „Partygate“-hneykslið svokallaða, þegar sóttvarnalög vegna heimsfaraldursins voru brotin í afmælisveislu hans árið 2020.

Johnson hefur ítrekað neitað fyrir það í þingsal að hvorki hann né starfslið hans hafi brotið sóttvarnalög þegar kórónuveirufaraldurinn stóð sem hæst með veisluhöldum í Downingstræti.

Sagði af sér í júlí í fyrra

Breska lögreglan sektaði hóp af samstarfsmönnum Johnsons í kjölfar lögreglurannsóknar. Þá varð ráðherrann sjálfur fyrsti sitjandi forsætisráðherra landsins sem hefur gerst brotlegur við lög í tengslum við eina af þeim veislum sem voru haldnar í ráðherrabústaðnum.

Johnson sagði af sér embætti í júlí í fyrra eftir að hafa setið mánuðum saman undir ásökunum um sóttvarnabrot auk annarra hneykslismála. 

Nefndin, sem fer með rannsókn málsins, hefur greint frá því að Johnson muni mæta á opinn fund sem fer fram 22. mars.

Hafi ekki sagt satt og rétt frá

Í bráðabirgðaskýrslu, sem var birt fyrr í þessum mánuði í kjölfar átta mánaða vinnu, segir nefndin að þau gögn sem hún hafi undir höndum grafi undan þeim fullyrðingum Johnsons fyrir fullttrúadeild þingsins að hann sé blásaklaus.

„Sönnunargögnin benda sterklega til þess að Johnson hefði mátt vera ljóst að reglur hafi verið brotnar [varðandi Covid] þegar hann var viðstaddur viðburðina,“ segir m.a. í skýrslunni.

Þá segir að gögn bendi enn fremur til þess að fulltrúadeild þingsins hafi í nokkur skipti verið afvegaleitt.

Johnson kokhraustur

Johnson hefur aftur á móti haldið því fram að skýrslan muni hreinsa hann af allri sök.

„Það er ekkert sem bendir til þess að nokkur af mínum ráðgjöfum eða opinberum starfsmönnum hafi varað mig við því fyrirfram að þessir viðburðir gætu verið í andstöðu við lög,“ sagði Johnson, sem heldur því fram að hann hefði hagað sér í samræmi við lög og reglur.

Sjö manna þingnefnd mun að lokum taka endanlega ákvörðun í málinu og ákveða næstu skref. Verði Johnson fundinn sekur þá kemur til greina að víkja honum af þingi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert