Vilja hefta enn frekar aðgengi að þungunarrofi

Fjöldi mótmæla hafa verið haldin í kjölfar þess að réttur …
Fjöldi mótmæla hafa verið haldin í kjölfar þess að réttur Bandaríkjamanna til þungunarrofs var felldur úr gildi í júní á síðasta ári. AFP/Scott Olson

Andstæðingar þungunarrofs í Bandaríkjunum binda nú vonir við að lyfseðilsskylda lyfið mifepristone verði bannað í landinu í dómsmáli sem höfðað var gegn Bandaríska lyfjaeftirlitinu (FDA). 

Lyfið hefur verið notað til að framkalla um 53% þungunarrofa í landinu eða í ríflega 500 þúsund tilfella á ári. Fjöldi samtaka sem berjast gegn þungunarrofi hafa nú stefnt lyfjaeftirlitinu FDA í von um að stöðva dreifingu lyfsins.

Málflutningur fer fram fyrir dómara í borginni Amarillo í Texas-ríki, en málið er talið einstakt en þetta mun vera í fyrsta sinn sem að lyfjaeftirlitinu hefur verið stefnt fyrir dómi vegna lyfs sem er talið jafn öruggt og árangursríkt og mifepristone.

Samtökin eru þó bjartsýn á að fá sínu framgengt en dómarinn í málinu, Matthew Kacsmaryk, er þekktur fyrir íhaldssemi og fyrir að vera andvígur þungunarrofi. 

Vilja að málinu verði vísað frá

Frá því að mifepristone var samþykkt af lyfjaeftirlitinu hafa um 5,6 milljónir Bandaríkjamanna nýtt sér það til að framkalla þungunarrof.

Alliance Defending Freedom, kristin samtök sem berjast gegn þungunarrofi, höfðuðu mál gegn lyfjaeftirlitinu á þeim forsendum að leyfisveitingin væri óvísindaleg og að hugsanleg áhrif á heilsufar neytenda og fylgikvillar hefðu verið hundsaðir.

„Lyfjaeftirlitið brást bandarískum konum og stúlkum þegar það kaus pólitík fram yfir vísindi og veitti leyfi fyrir þungunarrofstöflum til notkunar í Bandaríkjunum,“ segja samtökin.

Lyfjaeftirlitið hefur farið fram á að málinu verði vísað frá.

„Almannahagsmunir gætu orðið fyrir miklum skaða ef að örugga og árangursríka lyfið verður fjarlægt af markaði, eftir að hafa verið þar löglega í 22 ár,“ segir lyfjaeftirlitið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert