Lagt til að greiða hverjum svörtum íbúa 710 milljónir

Golden Gate-brúin í San Francisco.
Golden Gate-brúin í San Francisco. AFP/Josh Edelson

Borgarstjórn San Francisco hefur hlýtt á fleiri en eitt hundrað tillögur um fjárhagslegar bætur handa svörtum íbúum borgarinnar vegna arfleifðar þrælahalds og kynþáttahaturs í Bandaríkjunum. 

Meðal annars hefur verið lagt til að greiða hverjum og einum svörtum íbúa yfir 18 ára fimm milljónir bandaríkjadala, eða um 710 milljónir íslenskra króna, í miskabætur.

Aðrar tillögur kváðu á um skuldaafnám, skattalækkanir og tryggðar árstekjur til svartra fjölskyldna í 250 ár. Önnur tillaga stakk upp á útboði á fasteignum fyrir aðeins einn dollara fyrir svartar fjölskyldur.  

Segja þetta nauðsynlegt

Stefnumótunin er talin sú stærsta af sínu tagi í sögu Bandaríkjanna. Stuðningsmenn segja átakið nauðsynlegt vegna arfleifðar þrælahalds og kynþáttahaturssem hefur enn nú á tímum neikvæðar fjárhagslegar og félagslegar afleiðingar fyrir svarta Bandaríkjamenn.

Andstæðingar áformanna segja erfitt að fjármagna tillöguna, sérstaklega í ljósi niðursveiflu tækniiðnaðarins í Sílíkon-dal, sem er staðsettur í San Francisco. Einnig eru margir andvígir því að Kalíforníubúar sem ekki eru afkomendur þrælaeigenda verði látnir gjalda fyrir þrælahald. 

Búist er við fyrstu niðurstöðum borgarstjórnar í júní á þessu ári, en þá verður það í höndum þingmanna á löggjafarþingi ríkisins að semja lagafrumvarp og ákveða hvort greidd verði atkvæði um það.

Um 50.000 svartir Bandaríkjamenn búa í San Francisco, en ekki hefur verið ákveðið hverjir nákvæmlega myndu eiga rétt á miskabótunum. 

mbl.is