Látinn í tjaldi í þrjú ár

Vesturlandshöfuðstaðurinn Bergen í Noregi. Lík karlmanns sem þar fannst í …
Vesturlandshöfuðstaðurinn Bergen í Noregi. Lík karlmanns sem þar fannst í tjaldi 26. febrúar er talið hafa legið þar í þrjú ár, steinsnar frá samgöngustoppistöð og skrifstofum stærsta olíufyrirtækis landsins. Ljósmynd/Wikipedia/Tomoyoshi NOGUCHI

Náttúru- og umhverfissvið sveitarfélagsins Bergen í Noregi liggur nú undir ámæli fyrir að starfsmenn þess fundu aldrei tjald, sem bæjarskrifstofum var tilkynnt að stæði á skógivöxnu holti í Sandsli í maí 2020 og væri til óþrifnaðar. Lét umhverfissviðið málið niður falla þar sem starfsmenn sem óku um svæðið sáu ekkert tjald.

Turid Mjåtveit, sem viðraði hund sinn sunnudaginn 26. febrúar, fann tjaldið hins vegar auðveldlega – án þess að vera að leita að því. Henni varð ekki um sel þegar hún leit inn í tjaldið. Þar lá maður, eða jarðneskar leifar hans, og nú í vikunni varð það ljóst, í kjölfar lögreglurannsóknar, að lík mannsins hafði legið í tjaldinu í þrjú ár – um það bil frá þeim tíma sem starfsmenn umhverfissviðs lituðust um eftir tjaldinu. Reyndar lengur:

„Í kjölfar rannsóknar virðist svo, sem viðkomandi hafi látist í febrúar 2020, ekkert gefur til kynna að saknæm háttsemi hafi átt sér stað,“ segir í fréttatilkynningu frá vesturumdæmi norsku lögreglunnar.

Sýndist hann hafa legið lengi

Málið þykir með ólíkindum þar sem allan þennan tíma stóð tjaldið tæpa 50 metra frá stoppistöð léttlestakerfisins Bybanen, borgarlínu þeirra Björgvinjarbúa, auk þess sem það stóð aðeins steinsnar frá starfsstöðvum Equinor, áður Statoil, stóru skrifstofuhúsnæði þar sem fjöldi manns gengur til starfa sinna daglega. Akvegir og göngustígar eru einnig mjög nálægt.

„Það var það sem ég sagði lögreglunni. Mér sýndist hann vera búinn að liggja lengi. Ég sá hvernig þetta leit út þegar ég fann tjaldið,“ segir Mjåtveid við norska ríkisútvarpið NRK. Í tjaldinu fann lögreglan matarleifar og matarumbúðir með upplýsingum um löngu liðinn síðasta neysludag.

Hún fann þar einnig vegabréf hins látna, sem var karlmaður á sextugsaldri, og gat þar með haft uppi á ættingjum hans. DNA-sýni frá þeim staðfesti svo óyggjandi var að í tjaldinu lá eigandi vegabréfsins. Frá þessu greinir Grunde Næss, deildarstjóri rannsóknardeildar lögreglunnar í Bergen, en enginn grunur leikur á að saknæm háttsemi hafi átt þátt í andláti tjaldbúans svo sem fyrr segir.

Lögreglan tilkynnti um tjaldið

„Að það séu liðin þrjú ár og enginn hafi tilkynnt að hans væri saknað er ótrúlega sorglegt,“ segir hundaeigandinn Mjåtveid, en eftir því sem lögregla greinir frá biðja ættingjar hins látna um að ekki verði greint frá nafni hans. „Þau vilja bara vera í friði,“ segir Næss deildarstjóri.

„Tilkynningin sem við fengum snerist um að þarna þyrfti að hreinsa til, óþrifnaður væri af þessu,“ segir Kristin Madsen Klokkeide, sviðsstjóri náttúru- og umhverfissviðs, við NRK, en sú tilkynning kom reyndar, að sögn Klokkeide, frá lögreglunni í Bergen 19. maí 2020. Hafði einhver vegfarandi þá sett sig í samband við hana og tilkynnt um tjald og rusl á víðavangi í bænum.

Hér hafa fréttamenn NRK merkt inn á loftmynd Google Maps …
Hér hafa fréttamenn NRK merkt inn á loftmynd Google Maps hvar tjaldið fannst. Stóru byggingarnar norðan við staðinn eru skrifstofur Equinor í Bergen. Skjáskot/Google Maps

Starfsfólk umhverfissviðs sendi tilkynninguna áfram til rekstrardeildar með beiðni um að málið yrði athugað. „Þeir fundu ekki tjaldið og málinu var ekki fylgt eftir frekar. Bærinn fær fjölda tilkynninga um sorp sem er fylgt eftir en við höfum engar nánari upplýsingar um þetta mál þar sem tjaldið fannst ekki. Þá er ekki gerð nein skýrsla,“ segir sviðsstjórinn.

Hundaeigandinn Mjåtveid á erfitt með að sætta sig við slíkar skýringar. „Þeir hefðu fundið tjaldið ef þeir hefðu farið út úr bílnum,“ segir hún við NRK.

Ef marka má rannsókn lögreglunnar lá maður á sextugsaldri að öllum líkindum þegar látinn í tjaldinu í Sandsli í Bergen þegar starfsmenn bæjarins óku þar um vorið 2020 og komu hvergi auga á tjald.

NRK

Nettavisen

VG

mbl.is