Stríðsglæpur að nema börn á brott

Norski dómarinn Erik Mose ræddi við blaðamenn á fundi í …
Norski dómarinn Erik Mose ræddi við blaðamenn á fundi í Genf í Sviss í dag, þar sem hann upplýsti um helstu niðurstöður nefndarinnar. AFP

Hópur rannsakenda á vegum Sameinuðu þjóðanna segir að aðgerðir rússneskra stjórnvalda við flytja úkraínsk börn með valdi og úr landi til rússneskra yfirráðasvæða jafngildi stríðsglæpum. Þeir segja enn fremur að Rússar hafi gerst mögulega sekir um glæpi gegn mannkyni. 

Mannréttindaráð SÞ setti hópinn á laggirnar fyrir einu ári til að rannsaka þau fjölmörgu mannréttindabrot sem Rússar eru sakaðir um í Úkraínu frá því þeir réðust inn í landið í febrúar í fyrra. Hópurinn, sem er þriggja mana sem norski dómarinn Erik Mose leiðir, hefur nú skilað sinni fyrstu skýrslu og þar er tekið skýrt fram að mörg brotanna teljist vera stríðsglæpir, og er m.a. lögð sérstök áherslu á brottflutning barna frá Úkraínu til Rússlands. 

Yfir 16.000 börn numin brott

Í lok febrúar var búið að nema 16.221 barn á brott frá Úkraínu samkvæmt upplýsingum frá úkraínskum stjórnvöldum. 

Rannsakendurnir taka fram að þeir hafi ekki náð að fá þessa tölu endanlega staðfesta. Þeir benda á að rússneskir embættismenn hafi gripið til ýmissa aðgerða við þennan flutning, m.a. til að flytja börnin á stofnanir fyrir börn eða fósturheimili og gefið þeim rússneskt ríkisfang. 

Stríðandi fylkingar mega ekki nema börn á brott.
Stríðandi fylkingar mega ekki nema börn á brott. AFP

Í skýrslunni er vísað til tilskipunar sem Vladímír Pútín Rússlandsforseti undirritaði sem auðveldaði ferlið við að útvega hluta barnanna rússneskan ríkisborgararétt. 

Nefndin segir að samkvæmt alþjóðlegum mannréttindalögum þá sé óheimilt fyrir þá sem taka þátt í stríðsátökum að flytja börn á brott með þessum hætti, nema í örfáum undantekningartilvikum. 

Tekin með valdi

Rannsakendurnir segja einnig frá því að þeir hafi farið ítarlega yfir nokkur atvik sem tengjast brottflutningi á 164 börnum, sem eru á aldrinum fjögurra ára til átján ára, frá héruðunum Donetsk, Karkív og Kerson. 

Í nefndinni eiga sæti þau Jasminka Dzumhur, Erik Mose, sem …
Í nefndinni eiga sæti þau Jasminka Dzumhur, Erik Mose, sem er formaður, og Pablo de Greiff. AFP

Þeir segja frá vitnisburði foreldra og barna um að börnin brottnumdu hafi fengið upplýsingar frá starfsfólki hjá rússneskri félagsþjónustu um að börnin myndu fara til fósturfjölskyldu eða verða ættleidd. Börnin hafi enn fremur lýst yfir miklum ótta og áhyggjum yfir því að fá aldrei að hitta fjölskyldur sínar aftur. 

Kerfisbundin og ítrekuð ofbeldisverk

Þá er farið yfir ýmis önnur brot Rússa í Úkraínu sem einnig teljist vera stríðsglæpir. Meðal annars ítrekaðar árásir á almenna borgara og innviði, morð, pyntingar nauðganir og önnur kynferðisbrot. 

Nefndin segir jafnframt að stjórnvöld í Moskvu gæti mögulega borið ábyrgð á enn alvarlegri glæpum gegn mannkyni. Þá er vísað á fjölmargar árásir sem Rússar hafa gert á orkuinnviði landsins sem hófust í október. Nefndarmenn leggja til að þau mál verði rannsökuð sérstaklega. 

Stríðið í Úkraínu hefur staðið yfir í rúmt ár.
Stríðið í Úkraínu hefur staðið yfir í rúmt ár. AFP

Einnig er vísað til kerfisbundinna ofbeldisverka, s.s. pyntinga og ómannúðlega meðferð af hálfu rússneskra yfirvalda, á svæðum sem þau ráða yfir. Þau eru m.a. sökuð um að gefa raflost í kynfæri, láta fanga hanga úr lofti með hendur bundnar fyrir aftan bak, kæfa fólk með plastpoka, nauðganir og annað kynferðisofbeldi. 

Í skýrslunni segir að rússnesk stjórnvöld hafi ítrekað beitt pyntingum á kerfisbundinn máta og að slíkt sé glæpur gegn mannkyni. mbl.is