Erdogan greiðir leið Finnlands að NATO

Erdogan hefur breytt afstöðu sinni gagnvart aðildarumsókn Finnlands í NATÓ.
Erdogan hefur breytt afstöðu sinni gagnvart aðildarumsókn Finnlands í NATÓ. AFP

Recep Tayyip Erdogan, Tyrklandsforseti ávarpaði í dag Tyrkneska þingið og biðlaði til þingmanna að kjósa með aðild Finnlands að Atlantshafsbandalaginu.

Tyrkland, ásamt Ungverjalandi, hefir staðið í vegi fyrir inngöngu Finnlands og Svíþjóðar í NATO til þessa og hafa sagt báðar þjóðir vera bendlaðir við hryðjuverkamenn.  

Öll aðildarfélög NATO þurfa að veita blessun sína til þess að umsóknarlönd hljóti aðild að bandalaginu. Bæði Finnland og Svíþjóð sóttu um aðild í maí á síðasta ári í kjölfar innrásar Rússlands í Úkraínu, en Finnland er nágrannaland Rússlands.

Finnlandsforseti Sauli Niinisto er í opinberri ferð í landinu um þessar mundir og hrósaði Erdogan landinu fyrir „ósvikin og áþreifanleg skref varðandi öryggi Tyrklands“.

Leiðtogarnir ganga eftir bláum dregli að forsetahöllinni í Ankara.
Leiðtogarnir ganga eftir bláum dregli að forsetahöllinni í Ankara. AFP

Enn andvígur aðild Svíþjóðar

En þrátt fyrir framfarir í sambandi Finnlands og Tyrklands gildir það sama ekki um nágrannaþjóð Finna. Erdogan neitar enn að veita Svíþjóð stuðning sinn og sagði á upplýsingafundi í dag að landið hefði tekið Kúrdískum hryðjuverkamönnum með opnum örmum og kvartaði yfir að sænsk stjórnvöld hefðu leyft herskáum Kúrdum að mótmæla í Stokkhólmi.  

Jens Stoltenberg framkvæmdastjóri NATO tók fréttunum fagnandi, en tók fram að nú væri mikilvægt að umsókn Svíþjóðar yrði einnig samþykkt.

„Það sem skiptir mestu máli er að bæði Finnland og Svíþjóð verði fullgildir aðildarþjóðir að NATO, ekki hvort þær fá aðild á nákvæmlega sama tíma“.

Gangi allt að óskum Erdogans á þinginu þarf Finnland aðeins að tryggja sér stuðning Ungverjalands til að fá aðild að NATO. Samkvæmt ríkistjórn Ungverjalands hefur verið boðað til kosninga á þingi, varðandi aðild Finnlands þann 27. mars. Ekki hefur verið ákveðið hvenær skuli kjósa um afstöðu þeirra gagnvart Svíþjóð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert