Lofar hærri bótum svo Japanir fjölgi sér

Fumio Kishida kynnir nýja stefnu.
Fumio Kishida kynnir nýja stefnu. AFP/

Vegna mikils samdráttar í fjölda barneigna í Japan hefur forsætisráðherra landsins nú lofað hærri barnabótum og því að lengja greitt fæðingarorlof. 

AFP greinir frá þessu en aðgerðirnar eru sagðar seinasta tilraun Japan til þess að fá yngra fólk til þess að fjölga sér. Nauðsynlegt sé að stækka kynslóðir til þess að hægt sé að halda japönsku samfélagi gangandi en Japanska þjóðin er ein sú elsta í heiminum.

Fumio Kishida, forsætisráðherra Japan segir næstu sex til sjö árin skipta gríðarlega miklu máli, þau séu seinasti séns ríkisins til þess að snúa þróuninni við áður en kynslóðasmæðin verði að stærri vanda.

„Ég vil búa til samfélag þar sem ungt fólk getur gift sig ef þau vilja og allir sem vilji geti eignast börn og alið þau upp án áhyggja,“ sagði Kishida.

Þá vonist ríkisstjórnin til þess að greiða leiðina fyrir nýja feður til þess að fara í fæðingarorlof. Gangi það upp ætli þau að áttatíu prósent nýrra feðra nýti sér fæðingarorlof árið 2030. Hlutfall nýrra feðra sem nýttu sér fæðingarorlofið í Japan árið 2021 var aðeins 14 prósent.

Til þess að hvetja foreldra til þess að nýta sér fæðingarorlof og yngra fólk til þess að eignast frekar börn hefur Kishida lagt til styrki til fyrirtækja sem leyfi lengra fæðingarorlof. Þá hefur hann einnig viðrað þá stefnu að hækka laun foreldra í fæðingarorlofi.

mbl.is