Lýsa yfir vantrausti á hendur Macron

Ýmsir flokkar á franska þinginu hafa lýst yfir vantrausti á …
Ýmsir flokkar á franska þinginu hafa lýst yfir vantrausti á Emmanuel Macron forseta Frakklands. AFP

Franska stjórnarandstaðan hefur lagt fram vantrauststillögu gegn ríkisstjórn Emmanuels Macrons Frakklandsforseta í kjölfar þess að frumvarp hans um hækkun eftirlaunaaldurs var þvingað í lög án atkvæðagreiðslu þingsins.

Liot-hópurinn, sem er samsteypa nokkurra miðjuflokka í landinu, lagði fram vantrauststillögu á ríkisstjórn Macrons í dag. NUPES (f. Nouvelle Union populaire écologique et sociale), sem eru samtök vinstriflokka í Frakklandi, skrifuðu einnig undir tillöguna.

„Atkvæðagreiðslan um þessa tillögu mun gera okkur kleift að ná taki á djúpu pólitísku hættuástandi,“ segir Bertrand Pancher, formaður Liot-hópsins.

Greint var frá því í gær að Frakklandsforseti hafi nýtt þriðja ákvæði 49. greinar frönsku stjórnarskrárnar til þess að koma frumvarpi um hækkun eftirlaunaaldurs úr 62 ára upp í 64 ára í gegnum þingið án atkvæðagreiðslu.

Ákvörðunin olli miklum usla á þinginu og stóðu margir þingmenn upp og sungu franska þjóðsönginn í háðsskyni. Mótmæli og verkfall hafa verið í landinu síðustu mánuði vegna frumvarpsins.

mbl.is