Vaknaði við að hjá honum var djöfull

Gríðarlegur viðbúnaður var í Søm í Kristiansand eftir að ákærði …
Gríðarlegur viðbúnaður var í Søm í Kristiansand eftir að ákærði gaf sig fram á lögreglustöð í nágrenninu en þangað ók nágranni hans honum eftir ódæðið. Maðurinn er grunaður um að myrða konu sína og dóttur á hrottalegan hátt. Ljósmynd/Vegfarandi

Jan Tallaksen héraðssaksóknari fer fram á þyngstu refsingu sem norsk lög leyfa, 21 árs fangelsi, í máli 56 árs gamals fjölskylduföður sem nú er réttað yfir í Héraðsdómi Agder í Suður-Noregi þar sem hann liggur undir grun fyrir að hafa myrt 42 ára gamla eiginkonu sína og tvítuga dóttur með hamri og hníf á heimili þeirra í Søm í Kristiansand 28. mars í fyrra.

„Við stöndum frammi fyrir ólýsanlegum harmleik. Móðir og systir voru myrtar. Eftir standa sex systkini án móður sinnar og systur,“ sagði Kristine Eide, réttargæslulögmaður þriggja af sex eftirlifandi systkinum, í réttinum í dag, „útilokað er að gera sér í hugarlund sorgina og sársaukann sem þau sem eftir standa upplifa.“

Níu ára sonur viðstaddur

Ákærði tjáði sig í héraðsdómi fyrr í vikunni og vísaði refsiábyrgð á drápunum á bug en auk þeirra er hann ákærður fyrir að hafa myrt eiginkonu sína og dóttur að níu ára syni sínum ásjáandi en hann kom heim úr skólanum rétt áður en ákærði lét til skarar skríða. Eins var drengurinn með í för þegar nágranni ók ákærða á lögreglustöð eftir atvikið þar sem hann gaf sig fram.

„Hann hefur orðið vitni að skelfilegum gjörðum,“ sagði Tallaksen saksóknari fyrir dómi í dag.

Sem fyrr segir krefst ákæruvaldið 21 árs fangelsisrefsingar og heldur saksóknari því fram að ákærði hafi vitað hvað hann aðhafðist þau augnablik sem hann framdi verknað sinn.

Verjandi ákærða, Mohamed Hamzaoui, krefst sýknu á þeirri forsendu að um tugur sálfræðinga og annars starfsfólks heilbrigðiskerfisins hafi lagt fram aðrar greiningar á andlegu ástandi ákærða en þær sem dómkvaddir geðlæknar kynntu við aðalmeðferð málsins. Er ákærði ekki talinn ganga heill til skógar en greining hans er hins vegar ekki bundin við ákveðinn sjúkdóm, hún er „uspesifisert psykotisk diagnose“ samkvæmt því sem lagt hefur verið fyrir dóminn.

Hamar og hnífur undir púða í ár

Ákærði kveðst hafa vaknað klukkan fjögur að morgni 28. mars í fyrra við að hjá honum var djöfull (n. demon). Sá hafi sagt honum að hann yrði að drepa og eftir það hafi hann ekkert af sér vitað fyrr en hann vaknaði á sjúkrahúsi.

Þungavigtaratriði í málflutningi Tallaksen saksóknara, hvað sem andlegu ástandi ákærða eða meintri ásókn djöfla líður, er þó að hamarinn og hnífinn, sem hann notaði við ódæðið, faldi hann í heilt ár undir púða í stofusófanum.

Ekki er enn vitað hvenær dóms er von í málinu.

NRK

Nettavisen

TV2

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert