Glundroði og óhirða í París

Margir mótmælendur hafa brugðið á það ráð að kveikja í …
Margir mótmælendur hafa brugðið á það ráð að kveikja í ruslinu sem liggur á strætum Parísar. AFP

Mótmæli vegna lagasetningar um hækkun eftirlaunaaldurs í Frakklandi hafa komið af stað miklu umróti á götum Parísar. Þórir Oddsson er búsettur í París en hann segir þrungið andrúmsloft í borginni.

Vísar hann þá sérstaklega til þess að vegna verkfalla starfsfólks sorphirðu séu ruslatunnur yfirfullar og sum stræti full af sorpi. Talið er að um tíu þúsund tonn af rusli standi á götum Parísar.

Mótmæli við þinghúsið bönnuð

Lögreglan í París tilkynnti í dag að bann hefði verið lagt við mótmælum á torginu Place de la Concorde og á svæðinu í grennd við Champs Elysees.

Með þessu sögðust löggæsluyfirvöld vera að bregðast við „raunverulegri ógn við allsherjarreglu“.

Mótmælin hófust þegar Emmanuel Macron, Frakklandsforesti, hækkaði eftirlaunaladur úr 62 árum í 64 án aðkomu franska þingsins.

Óeirðir í Lyon sömuleiðis

Málið hefur vakið úlfúð um gjörvallt Frakkland en í borginni Lyon voru 36 handteknir eftir að mótmælendur kveiktu í byggingum og gerðu tilraunir til húsbrots.

Ríkisstjórn Frakklands hefur lengi haldið því fram að breytingin sé nauðsynleg vegna breyttra lýðfræðilegra og efnahagslegra forsendna.

mbl.is