Eyddi sjö milljónum í Clash of Clans

Myndin tengist fréttinni ekki beint.
Myndin tengist fréttinni ekki beint. AFP

Í umræðum um þjónustu Tinder minntist Bernard Kim, forstjóri Match Group, á það í framhjáhlaupi að hann hefði greitt um sjö milljónir króna fyrir tölvuleikinn Clash of Clans á þriggja mánaða tímabili.

Match Group er eignarhaldsfélag sem rekur fjöldann allan af stefnumótaforritum, meðal annars Tinder, Hinge og fleiri forrit, en Kim lét þessi ummæli falla í pallborðsumræðu á stefnumótaforritaráðstefnu.

Fjárfesting í Tinder Gold fýsilegri kostur

Þar var rætt um hvað notendur fengju fyrir það fé sem það greiddi fyrir smáforrit á borð við Tinder eða tölvuleiki.

„Enginn spilar þessa leiki að eilífu. Á einhverjum tímapunkti fær fólk nóg af leiknum og leitar eitthvað annað. Sjálfur hef ég eytt 50 þúsund Bandaríkjadölum í leikinn Clash of Clans á þriggja mánaða tímabili. Mér finnst það skammarleg minning.“

Clash of Clans er fjölspilunarleikur þar sem leikmenn fá að skipuleggja þorp og ráðast á þorp annarra. Með því að borga fyrir stafræna gjaldmiðla er hægt að ná skjótum árangri og hraða uppbyggingu þorpa til muna. 

Kim bar þessa fjárútlát í Clash of Clans saman við fjárfestingu í Tinder. Hann benti á að margir kynnist lífsförunautum sínum á hinum síðarnefnda miðli og því væri áskrift að Tinder töluvert betri fjárfesting.

mbl.is