Lineker raddlaus og getur ekki kynnt

Gary Lineker er launahæsti sjónvarpsmaður BBC.
Gary Lineker er launahæsti sjónvarpsmaður BBC. AFP/Darren Staples

Breski sjónvarpsmaðurinn Gary Lineker mun ekki stýra knattspyrnuumfjöllun á BBC í dag eins og hann er vanur að gera um helgar. Eftir að hafa náð sáttum í deilu við stjórnendur stöðvarinnar er Lineker orðinn lasinn og raddlaus í þokkabót.

„Eins og glöggir áhorfendur tóku eftir í gær var Gary Lineker í vandræðum með röddina og því miður hefur vandinn bara ágerst í nótt. Alex Scott mun hlaupa í skarðið fyrir hann,“ segir í Twitter fræslu frá BBC.

Stirt samband um tíma

Samband Gary Lineker og BBC hefur verið mikið til umræðu eftir að stöðin setti Lineker í tímabundið leyfi vegna ummæla hans um stefnu Íhaldsflokksins í útlendingamálum. Lineker líkti henni við Þýskaland þriðja áratugar síðustu aldar.

Samstarfsmenn Lineker sýndu honum stuðning í verki og neituðu að koma fram í þættinum. Þá greindu margir leikmenn og þjálfarar í ensku úrvalsdeildinni frá því að þeir myndu ekki samþykkja viðtalsbeiðnir frá BBC á meðan Lineker væri í leyfi.

Lineker og BBC sættust þó um síðustu helgi og því má gera ráð fyrir því að Lineker birtist bráðlega aftur á skjám breskra knattspyrnuáhangenda. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert