Ákærður fyrir stríðsglæpi í Afganistan

Talíban­ar náðu völd­um í Afganistan í ág­úst árið 2021. Myndin …
Talíban­ar náðu völd­um í Afganistan í ág­úst árið 2021. Myndin tengist fréttinni ekki beint. AFP/Shafiullah Kakar

Fyrrverandi hermaður í ástralska flughernum hefur verið ákærður fyrir morð í kjölfar rannsóknar á meintum stríðsglæpum í Afganistan.

Hinn 41 árs gamli Oliver Schulz er fyrsti ástralski hermaðurinn sem ákærður er fyrir stríðsglæp samkvæmt áströlskum lögum. Hann getur átt yfir höfði sér allt að lífstíðarfangelsi.

Schulz var handtekinn í dag og verður leiddur fyrir dómara á morgun.

Skaut afganskan mann á hveitiakri

Ástralski ríkismiðillinn ABC segir að Schulz sé sá sem vísað var til sem hermaður C í heimildamynd ABC sem fletti ofan af meintum stríðsglæpum.

Í myndinni er sýnt hvernig hermaður C skýtur afganskan mann á hveitakri í Uruzgan-héraði í Suður-Afganistan árið 2012.

Í kjölfar fjögurra ára óformlegrar rannsóknar á meintum stríðsglæpum, sem hæstaréttardómarinn Paul Bereton leiddi, var formleg rannsókn sett af stað hjá OSI, embætti sérstaks rannsakanda.

Myrtu fanga, bændur og aðra óbreytta borgara

Árið 2020 var svo svokölluð Bereton-skýrsla gefin út þar sem komist var að því að trúverðug sönnunargögn bentu til þess að ástralskir sérsveitarhermenn hafi vegið 39 manns á ólöglegan hátt í stríðinu í Afganistan.

Skýrslan benti á að 19 núverandi eða fyrrverandi sérsveitarhermann skyldu sæta lögreglurannsókn vegna morða á föngum, bændum eða öðrum óbreyttum borgurum á árunum 2009 til 2013.

Handtakan á Schulz er talin vera fyrsta handtakan í tengslum við rannsóknina. Ástralski herinn hefur sagt stríðsglæpina komna til vegna „óbeislaðrar stríðsmenningar“ meðal hóps hermanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert