Norska ríkið hafði betur í Svalbarðamáli

Svalbarði er eyjaklasi í Norður-Íshafi sem er undir stjórn Noregs. …
Svalbarði er eyjaklasi í Norður-Íshafi sem er undir stjórn Noregs. Hins vegar heimilar samkomulag um eyjaklasann að aðrar þjóðir nýti þar auðlindir, þótt slíkt takmarkist að talsverðu leyti af legu landsins og fjárhagslegum fýsileika. Fyrir Hæstarétti Noregs var nú tekist á um nýtingu sjávarauðlinda sem eru utan 12 mílna landhelgi en innan landgrunns eyjaklasans. AFP/BOB STRONG

Hæstiréttur Noregs staðfesti í dag rétt norska ríkisins til auðlindanýtingar á landgrunni Svalbarða. Málið gæti sett mikilvægt fordæmi og haft talsverðar afleiðingar í för með sér.

Allir 15 dómarar við Hæstarétt Noregs stóðu á bak við dóm réttarins í málinu, en það var lettneska sjávarútvegsfyrirtækið SIA North STAR sem höfðaði málið og vildi fá að stunda veiðar á snjókrabba á landgrunni eyjaklasans.

Svalbarði er með nokkuð sérstaka stöðu í alþjóðsamhengi. Árið 1920 var skrifað undir svokallaðan Spitsbergen-sáttmála sem nær til stjórnunar og auðlindanýtingar við eyjaklasann.

Þar kemur fram að Noregur hafi full yfirráð yfir Svalbarða, en einnig að önnur ríki sem skrifuðu undir sáttmálann njóti réttinda til veiða í sjó og á landi á eyjunum. Þetta hefur einnig náð til annarra auðlindanýtinga og hafa Rússar meðal annars haldið uppi námuvinnslu á Svalbarða.

Orðalag samkomulagsins hefur hins vegar verið nokkuð umdeilt, því þar er talað um landhelgi (e. territorial waters) eyjaklasans. Síðan sáttmálinn var undirritaður hefur þetta hugtak fest sig í sessi í alþjóðalögum, meðal annars í hafréttarsáttmála Sameinuðu þjóðanna frá árinu 1982 þar sem landhelgi er skilgreind sem 12 mílna hagsvæði út frá svokallaðri grunnlínu. Árið 1920 var þetta hugtak hins vegar ekki skilgreint nánar í alþjóðalögum.

Taldi SIA North STAR að í anda Spitsbergen-sáttmálans ættu sameiginlegu réttindi allra ríkjanna að ná til alls landgrunnsins í kringum eyjarnar, en það svæði nær langt út fyrir landhelgina.

Hæstiréttur Noregs komst hins vegar að þeirri niðurstöðu að ekki væri hægt að teygja orðalag samkomulagsins í þá átt sem SIA North STAR vildi gera. Þá var í dóminum jafnframt tekið fram að engin þróun hefði orðið í alþjóðalögum sem hefði áhrif á það hvernig landhelgi væri skilgreind.

mbl.is