Undirbúningur hafinn vegna mögulegrar ákæru

Donald Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseti.
Donald Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseti. AFP/Chandan Khanna

Engar fregnir hafa borist af handtökuskipun á hendur Donald Trump vegna meintra mútugreiðslna hans til klámleikkonunnar Stormy Daniels. Repúblíkanar hafa keppst um að gagnrýna framgang umdæmissaksóknara Manhattan í málinu.

Donald Trump, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna lýsti því yfir undir lok síðustu viku að hann yrði handtekinn í dag, þriðjudaginn 21. mars. Hann hvatti stuðningsfólk sitt til mótmæla vegna þessa og sagði þeim að „endurheimta landið“ sitt.

Neitar enn ástarsambandinu

Ýmislegt hefur á daga forsetans fyrrverandi drifið á síðustu árum. Þar á meðal átökin í þinghúsinu þegar stuðningsfólk hans réðst þar inn með látum og mótmælti niðurstöðum forsetakosninganna árið 2020. Þrátt fyrir alvarleika innrásarinnar virðist það ekki vera málið sem muni ef til vill leiða til handtöku Trump. Talið er að meintar mútugreiðslur Trump til klámleikkonunnar Stormy Daniels, réttu nafni Stephanie Clifford, fyrir forsetakosningarnar árið 2016 gætu leitt til handtöku hans.

Trump hefur neitað því staðfastlega að hafa átt í nokkurskonar sambandi við Clifford. Hann er sagður hafa beðið lögmann sinn um að greiða henni um átján milljónir króna til þess að hún myndi ekki greina frá gömlu ástarsambandi þeirra í aðdraganda forsetakosninganna árið 2016. Þá hafi hann með meintum greiðslum brotið bandarísk kosningalög.

Sögulegt ef af verður 

CNN greinir frá því að lögmannateymi Trump undirbúi sig nú undir formlega ákæru vegna málsins en ákærudómstóll hefur hlýtt á vitnisburði vegna málsins um nokkra hríð.

Verði Trump ákærður væri það í fyrsta sinn í sögu Bandaríkjanna sem slíkt gerist. Þá hafi það ekki tíðkast að fyrrverandi forsetum sé stefnt af arftökum sínum.

Í kjölfar yfirlýsinga Trump um málið hafa hinir ýmsu Repúblíkanar óbeint lýst yfir stuðningi við hann á meðan að málið gengur yfir og sagt umdæmissaksóknarann, Alvin Bragg, ganga erinda Demókrataflokksins með afli ríkisins. Þrátt fyrir þessar ásakanir á hendur Bragg hafa sömu flokksfélagar Trump einnig hvatt stuðningsfólk hans til þess að halda ró sinni.

Reuters greinir frá því að starfsmenn New York-borgar hafi í kjölfar mótmælahvatningar Trump, hafist handa við það að setja upp víggirðingar í kringum dómshús í Manhattan. Þetta séu fyrirbyggjandi aðgerðir vegna mögulegra mótmæla ef til ákæru kæmi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert