Vilja ekki gefa enskunni aukinn byr

Notre Dame-kirkjan í París.
Notre Dame-kirkjan í París. mbl.is/Ómar Óskarsson

Franskir hreintungusinnar hafa beint sjónum sínum að Notre Dame-dómkirkjunni í París og lögsótt söfnuðinn fyrir að þýða skilti sín eingöngu yfir á ensku. Hópnum hefur þegar tekist að þvinga fram breytingar við Eiffelturninn þar sem bæta þarf spænsku við upplýsingaskiltin ásamt ensku og frönsku.

Varnarsamtök franskrar tungu (f. Défense de la langue française) halda því fram að það að þýða skilti yfir á ensku stuðli að því að auka yfirburði tungumálsins á alþjóðavísu.

Í reglugerð frá 1994 er gerð krafa um að allar opinberar byggingar þýði öll tákn sín og upplýsingar á að minnsta kosti tvö tungumál. Þó er sú krafa gjarnan hunsuð.

Samtökin hafa lagt fram kæru fyrir dómstól í París gegn Notre Dame og krafist breytinga. Í kærunni er minnst á að við Eiffelturninn hafi í nóvember þurft að bæta við spænsku á allar merkingar eftir að samtökin hótuðu svipaðri málsókn.

„Alltaf ensk-amerískt“

Mörg þeirra skilta sem skýra frá yfirstandandi endurbyggingu Notre Dame í kjölfar eldsvoða sem átti sér stað árið 2019 eru skrifaðar á frönsku og ensku. „Ef það er erlent tungumál er það alltaf ensk-ameríska,“ sagði Louis Maisonneuve, talsmaður samtakanna.

Hann krafðist einnig þess að greinarmunur yrði gerður á „ensk-amerískri“ tungu og ensku. Hann segir að fyrsta val franskra stjórnvalda sé alltaf ensk-ameríska. Hann tekur sem dæmi að orðið „downtown“, sem kemur úr ensku, sé notað á götumerkingum í stað þess að nota „city centre“ en þar eru bæði orðin ættuð af frönsku.

„Lögin vernda frönskuna vegna þess að þau ýta undir málfarslega fjölhyggju,“ sagði Maisonneuve. Samtökin beina spjótum sínum að 20 öðrum opinberum aðilum, þar á meðal póstþjónustu landsins, vegna nafns bankaþjónustu þess, „Ma French Bank“.

mbl.is

Bloggað um fréttina