„Ég bið aðstandendur afsökunar“

Einn hinna ákærðu í málinu hefur játað að hafa skotið …
Einn hinna ákærðu í málinu hefur játað að hafa skotið Bård Lanes að kvöldi 20. apríl 2021. Lanes var ekki óumdeildur maður í Tønsberg. Margir töldu hann hvers manns hugljúfa en upplýsingar blaðamanna VG benda einnig sterklega til þess að margir hafi viljað hann feigan – og þær urðu einmitt málalyktir. Ljósmynd/Úr einkasafni

„Ég viðurkenni að ég á sökina á að hafa skotið,“ svaraði 27 ára gamall maður í Héraðsdómi Vestfold í Tønsberg í Noregi í gærmorgun þegar Åsmund Yli héraðssaksóknari las honum ákæru og bað hann að taka afstöðu til hennar.

Maðurinn er einn fjögurra sem bornir eru sökum fyrir að hafa ýmist pantað, lagt á ráðin um, átt hlutdeild að eða framið dráp Bård Lanes, 33 ára gamals uppljóstrara lögreglunnar í suðausturumdæminu sem skotinn var til bana á bílastæði við verslunarmiðstöðina Kilen í Tønsberg að kvöldi 20. apríl 2021 og mbl.is hefur fjallað um.

Viðbúnaður lögreglu við upphaf aðalmeðferðarinnar í héraðsdómi í gær var gríðarlegur, fjöldi vopnaðra lögregluþjóna var á staðnum og fóru allir áheyrendur gegnum vopnaleit áður en lögregla fylgdi einum og einum inn í dómsalinn.

„Ég bið aðstandendur afsökunar,“ hélt skotmaðurinn grunaði áfram, Sunnmæringur sem lögregla taldi sig nokkuð vissa um að hefði verið sá fjórmenninganna sem skaut Lanes kvöldið örlagaríka í hitteðfyrra. „Það sem gerðist átti ekki að gerast,“ sagði ákærði enn fremur og leit beint á Lise, kærustu Lanes heitins, og Glenn Lanes, bróður hans.

Ætlaði að fótbrjóta en tæmdi heilt magasín

Þetta er í fyrsta skipti sem maðurinn tjáir sig um atburðinn sem hann neitaði að segja eitt orð um við ótal lögregluyfirheyrslur eftir að mennirnir voru handteknir einn af öðrum síðasta vetur, þar af einn þeirra, 23 ára gamall Brasilíumaður, í kjölfar umfangsmikillar og þaulskipulagðrar tálbeituaðgerðar sem ítarlega er greint frá í viðhlekkjaðri frétt hér að ofan.

Eins og þar kemur enn fremur fram sá Andreas Christiansen héraðssaksóknari meinbugi á að nota hljóðrituð gögn úr aðgerðinni við aðalmeðferð málsins eftir að í hámæli komst að lögregla hefði veitt grunaða áfengi á hótelherbergi í Tromsø til að liðka um málbein hans. Krafðist verjandi mannsins þess enn fremur að umrædd gögn skyldu úrskurðuð ónothæf í heild og kvað héraðsdómari upp úrskurð þess efnis við upphaf aðalmeðferðar.

Úr myndefni öryggismyndavélar við verslunarmiðstöðina Kilen í Tønsberg að kvöldi …
Úr myndefni öryggismyndavélar við verslunarmiðstöðina Kilen í Tønsberg að kvöldi 20. apríl 2021. Þessi maður hefur nú játað á sig að hafa orðið Lanes að bana en fjölda spurninga er þó ósvarað í málinu. Mynd/Lögreglan í Tønsberg

Sá, sem nú hefur játað á sig að hafa skotið Lanes, leggur ríka áherslu á að drápið hafi verið slys, ekki hafi verið meiningin að koma Lanes fyrir kattarnef, hann hafi eingöngu ætlað að fótbrjóta hann til að velgja honum undir uggum. Þess í stað tæmdi ákærði heilt magasín breyttrar startbyssu á eftir Lanes á bílastæðinu og hæfði hann einu skoti sem særði hann banasári.

Óskar að taka ábyrgð á gjörðum sínum

Meintum höfuðpaur málsins, Lasse nokkrum, sem grunaður er um að hafa pantað víg Lanes, var fullkunnugt um að Lanes hefði verið uppljóstrari lögreglu um langt skeið og reyndar var það á flestra vörum í undirheimum Suðaustur-Noregs eftir því sem dagblaðið VG hefur greint frá í kjölfar fjölda samtala við heimildarmenn þar.

Lögreglan neitar þó að tjá sig nokkuð um þessi meintu tengsl sín við Lanes en VG hefur birt samtöl af samfélagsmiðlinum Instagram milli Lanes og tengiliðar hans hjá lögreglunni og er eitt þeirra tíundað í fréttinni hér að ofan. Þá hefur áðurnefndur bróðir hins látna, Glenn Lanes, tjáð VG að þegar bróðir hans sat inni fyrir nokkru hefðu lögreglumenn verið tíðir gestir hjá honum í fangelsinu.

Volkswagen-bifreiðin sem fylgdi bifreið Lanes eftir síðasta kvöldið sem hann …
Volkswagen-bifreiðin sem fylgdi bifreið Lanes eftir síðasta kvöldið sem hann lifði fannst í ljósum logum í Sem í Tønsberg skömmu eftir víg hans. Ljósmynd/Slökkviliðið í Vestfold

Javeed Shah, verjandi grunaðs skotmanns, segir norska ríkisútvarpinu NRK að þeir skjólstæðingur hans hafi velt því fyrir sér í hátt í tvö ár hvar hann muni standa við upphafl aðalmeðferðarinnar. „Hann hefur ákveðið að viðurkenna sök og hefur tjáð sig í samræmi við það,“ segir Shah, „með því óskar hann eftir að taka ábyrgð á gjörðum sínum, leggja hönd á plóg við að upplýsa málið og taka út sína refsingu. Eins vill hann að aðstandendur [Lanes] fái svör við þeim spurningum er hvílt hafa á þeim.“

„Ég hef átt of auðvelt með að segja já“

Ákærði kvaðst fyrir héraðsdómi í gær hafa tekið verkið að sér til þess að eiga inni greiða. Fjölda spurninga Yli saksóknara um hvort hann skuldaði Lasse, höfuðpaurnum meinta, eða öðrum peninga svaraði hann öllum á sama veg, „ingen kommentar“, hann segði ekki neitt.

„Dauði hans hefur ekkert með neinn þessara stráka að gera,“ sagði ákærði og benti á meðákærðu. „Veistu hvað?“ sagði hann og beindi orðum sínum til Anders Nesheim héraðsdómara, „mér finnst ég hafa verið settur í aðstæður sem ég hafði ekkert með að gera. Ég var greiðvikinn við vini mína og fljótur á mér. Ég hef átt of auðvelt með að segja já. Þannig hefur það verið síðan ég var lítill,“ sagði hann enn fremur.

Dagblaðið VG hefur það eftir fjölda manns, þar á meðal …
Dagblaðið VG hefur það eftir fjölda manns, þar á meðal að minnsta kosti einum hinna ákærðu í málinu, að „allir“ hafi vitað af hlutverki Lanes sem lögregluuppljóstrara. Lögreglan vill þó ekki staðfesta að um slíkt samstarf hafi verið að ræða. Ljósmynd/Úr einkasafni

Yli saksóknari taldi framburð ákærða ekki trúverðugan eftir svo langa þögn við yfirheyrslur, vel á annað ár. „Þér hefur ekki verið hótað til að koma með þennan framburð?“ spurði Yli. „Nei, hver hefði átt að hóta mér?“ var spurt á móti. „Hefurðu tekið við greiðslu fyrir þennan framburð?“ „Nei, skoðaðu bara reikninginn minn.“

Hvað sem játningu skotmannsins grunaða líður er ljóst að fjórmenningarnir mega allir búast við þungum refsidómum verði þeir sekir fundnir en reiknað er með þremur mánuðum fyrir aðalmeðferðina sem hófst í gær.

Les lögreglu pistilinn eftir tálbeituaðgerð

Nesheim dómari úrskurðaði sem fyrr segir að öll gögn þess hluta tálbeituaðgerðarinnar, sem fram fór á hótelherberginu í Tromsø, væru ómerk og ónothæf við meðferð málsins fyrir dómi. Auk þess bregður hann beittum skeytum að lögreglu í skriflegum úrskurði sínum sem dagblaðið VG fjallar um og setur spurningarmerki við framgang lögreglu í aðgerðinni en hún flutti sérstaklega inn lögreglumenn sem mæltir eru á portúgalska tungu til að leika tveimur skjöldum í aðgerðinni sem stóð í marga mánuði.

Lögreguþjónninn í dulargervinu gengur mjög ákveðið til verks við að koma á sambandi við 23 ára gamla manninn sem ákærður er og lokkar hann þegar í upphafi með möguleikanum á að starfa með afbrotahópnum. Snemma í aðgerðinni verður – að áliti réttarins – til skipunarvald milli lögreglumannsins og 23 ára mannsins. Lögreglumaðurinn kemur þar fram sem yfirmaður; þrautreyndur félagi í glæpahópi.

Réttað er yfir mönnunum fjórum í Héraðsdómi Vestfold í Tønsberg.
Réttað er yfir mönnunum fjórum í Héraðsdómi Vestfold í Tønsberg. Ljósmynd/Wikipedia.org/Peter Fiskerstrand

 

Þá fjallar dómari sérstaklega um fundinn á hótelinu þar sem lögreglan veitti þeim brasilíska rauðvín, þrjú glös eða fimm, ákærða og lögreglu ber ekki saman um fjöldann.

Samtölin í Tromsø bera allan keim af lögregluyfirheyrslu og augljóst er að 23 ára manninum þykir það erfiðleikum bundið að færast undan því að svara þeim spurningum sem til hans er beint, hvort tveggja um sinn eigin þátt og þátt annarra í manndrápinu. „Yfirmaðurinn“ sem stýrir samtalinu í Tromsø spyr beinna spurninga sem lúta að refsiábyrgð og er mjög ágengur. Hann gefur þeim 23 ára fáa valkosti. Hér telur rétturinn að hreint og klárt skipunarvald hafi komist á milli „yfirmannsins“ og 23 ára gamla mannsins.

Segir Nesheim héraðsdómari að samtalið á hótelinu veki einnig áleitnar spurningar um hvers konar leiðbeiningar og verklagsreglur erlendu lögreglumennirnir hafi fengið frá þeim norsku áður en aðgerðin hófst. Þegar ákveðnar leikreglur (n. mandat) hafi ekki verið settar, til dæmis um að grunaði skyldi fá að ræða það sem hann óskaði eftir, horfi það ekki til annars en að auka á vafann um framkvæmd tálbeituaðgerðarinnar.

NRK

NRKII („Var þér hótað til að gefa þennan framburð?“)

NRKIII (Olav Rønneberg afbrotasérfræðingur NRK ræðir málið)

VG (gagnrýni Nesheim dómara)

TV2

mbl.is