Svíar hyggjast ganga í NATO

Aders Norlen, forseti sænska þingsins, slær fundarhamri í kjölfar atkvæðagreiðslu …
Aders Norlen, forseti sænska þingsins, slær fundarhamri í kjölfar atkvæðagreiðslu um inngöngu Svía í NATO. AFP

Sænska þingið samþykkti í dag að landið myndi ganga í Atlantshafsbandalagið (NATO). Ungverjaland og Tyrkland eiga samt enn eftir að samþykkja aðild þeirra.

269 þingmenn greiddu með inngöngu í NATO en aðeins 37 greiddu atkvæði á móti. 43 þingmenn voru ekki viðstaddir þegar atkvæðagreiðslan fór fram.

„Aðild að NATO er besta leiðin til að standa vörð um öryggi Svíþjóðar og leggur sitt af mörkum til þess að tryggja öryggi á öllu Atlantshafssvæðinu,“ sagði Tobias Billstrom, utanríkisráðherra Svíþjóðar, í þingumræðum sem fram fóru fyrir atkvæðagreiðsluna.

Pal Jonsson, varnarmálaráðherra Svíþjóðar og Tobias Billstrom, untanríkisráðherra Svíþjóðar.
Pal Jonsson, varnarmálaráðherra Svíþjóðar og Tobias Billstrom, untanríkisráðherra Svíþjóðar. AFP

Orban og Erdogan enn ekki samþykkir

Tyrkland og Ungverjaland eru einu NATO-ríkin sem eiga eftir að samþykkja aðild Svíþjóðar og Finnlands en fullgilding ríkjanna í NATO krefst einróma samþykkis allra 30 aðildarríkjanna.

Recep Tayyip Erdogan Tyrklandsforseti tilkynnti í síðustu viku að hann myndi biðja þingið um að greiða atkvæði um aðild Finnlands að NATO en Erdogan hefur lengi komið í veg fyrir að Finnland fái inngöngu í bandalagið. Hann segist enn ekki vera tilbúinn að heimila inngöngu Svíþjóðar.

Ungverjaland hefur tilkynnt að það muni greiða atkvæði um fullgildingu Finnlands þann 27. mars næstkomandi en aðild Svía yrði ákveðin „síðar“.

Erdogan Tyrklandsforseti hefur um hríð staðið í vegi Finna hvað …
Erdogan Tyrklandsforseti hefur um hríð staðið í vegi Finna hvað varðar inngöngu þeirra í Atlantshafsbandalagið. AFP

Í kjölfar tilkynningar frá tyrkneskum yfirvöldum sagði Bill Billstrom að Svíar hörmuðu ákvörðunina en hann og Ulf Kristersson forsætisráðherra hafa sagst vera þess fullvissir að Svíar yrðu aðilar að NATO fyrir næsta leiðtogafund bandalagsins, sem verður í Vilníus í Litháen í júlí.

Segja atkvæðagreiðslu einskis virði

Þegar innganga Svía í NATO var til umræðu á sænska þinginu í dag bentu sumir þingmenn á að atkvæðagreiðslan skipti litlu máli, miðað við núverandi stöðu.

„Þó að í frumvarpinu standi að lagt sé til að breytingin öðlist gildi á þeim degi sem ríkisstjórnin ákveður þýðir það samt á þeim degi sem Erdogan og [Viktor] Orban ákveða,“ sagði Hakan Svenneling, þingmaður sænska Vinstriflokksins á þingfundi.

Aðildarumsókn Svía hefur notið víðtæks stuðnings á þinginu en aðeins Vinstriflokkurinn og Græningjaflokkurinn eru á móti inngöngu.

mbl.is