Seldu myndskeið af aflimunum

Mál níumenninganna var þingfest í gær fyrir Westminster-dómstólnum í London …
Mál níumenninganna var þingfest í gær fyrir Westminster-dómstólnum í London og í Wales en á síðarnefnda staðnum komu þrír mannanna fyrir dómara. Ljósmynd/Wikipedia.org/GrimsbyT

Norðmaðurinn Marius Gustavson er talinn höfuðpaurinn í hópi níu manna sem komu fyrir rétt í London og velsku borginni Newport í gær við þingfestingu máls í hverju þeim er gefið að sök að hafa um sex ára skeið rekið vefsíðu þar sem þeir settu inn myndskeið af geldingum og limlestingum og seldu áskrift að síðunni.

Hefur hópurinn haft tekjur af áskriftarsölunni sem nema 200.000 breskum pundum, jafnvirði 34 milljóna íslenskra króna, en grunur leikur á að þeir hafi fjarlægt líkamshluta af allt að 29 manns er tilheyra menningarkima sem hrífst af slíkum aðförum. Sjálfur mætti Gustavson í hjólastól í dómsalinn þar sem hann hefur látið fjarlægja af sér annan fótinn, getnaðarliminn og aðra geirvörtuna, en þrír félaga hans liggja einmitt undir grun um að hafa framkvæmt þær aðgerðir.

„Stórfelldar líkamsbreytingar“

Tilheyra níumenningarnir hópi fólks, eða samfélagi eins og breska dagblaðið The Guardian vísar til hópsins, sem leggur stund á „stórfelldar líkamsbreytingar“ eða „extreme body modifications“ þar sem tilgangur, að minnsta kosti sumra, er að verða „nullos“ eða án kynfæra sem felur í sér að fjarlægja eistu og getnaðarlim karlmanna.

Auk framangreindra athafna eru Gustavson og samverkamenn hans grunaðir um að hafa boðið fjarlægða líkamshluta til sölu auk þess sem Gustavson er grunaður um að hafa undir höndum myndefni sem sýnir börn á kynferðislegan hátt.

Enginn mannanna níu hefur enn tekið afstöðu til sakargiftanna en aðalmeðferð málsins hefst í apríl.

The Guardian

Sky News

NRK

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert