Jørn Sigurd Maurud, ríkissaksóknari Noregs, hefur farið fram á það við endurupptökunefnd í sakamálum að voveiflegt manndrápsmál stúlknanna tveggja í Kristiansand í maí árið 2000 verði tekið upp að nýju hvað snertir þátt Jan Helge Andersen sem á sínum tíma hlaut 19 ára dóm í júní 2001.
Viggo Kristiansen var sýknaður af sínum þætti málsins í október, eftir að hafa setið í fangelsi í 20 ár, í kjölfar þess er grunur féll á Andersen á nýjan leik enda nú talið líklegast að hann hafi verið einn að verki, myrt báðar stúlkurnar á hrottafenginn hátt þar sem þær nutu veðurblíðunnar á útivistarsvæðinu Baneheia í Kristiansand 19. maí 2000 og komið sök á Kristiansen með því að sannfæra rannsakendur og dómendur um að hann hefði hvatt til ódæðisins.
Greindi ríkissaksóknari frá því í fyrra að nýjar erfðaefnisrannsóknir í kjölfar tveggja áratuga tækniframfara renndu stoðum undir ríkari þátt Andersens í atburðinum á Baneheia en talið var sannað árið 2001. Enn fremur gerði endurupptökunefndin athugasemdir við sönnunarfærslu þegar hún samþykkti í fyrra að mál Kristiansens yrði tekið upp á nýjan leik en hann hafði þá sjö sinnum sótt um það til nefndarinnar.
Eins og John Christian Elden lögmaður tjáði Morgunblaðinu í júlí í fyrra getur ný málsmeðferð yfir Andersen ekki kostað hann meira en tveggja ára fangelsi vegna fyrri dómsins. Til upprifjunar úr þeirri umfjöllun:
„Sé saksóknari þeirrar skoðunar að ný rannsókn málsins hafi getið af sér sönnunargögn, sem hafa úrslitaþýðingu um sekt Andersens í þeim hluta málsins sem hann var sýknaður af árið 2000, getur saksóknari krafist endurupptöku og nýrrar málsmeðferðar, hvað þann hluta málsins snertir,“ segir John Christian Elden, lögmaður í Ósló, í samtali við Morgunblaðið.
„Verði þetta raunin getur hann mögulega hlotið tveggja ára dóm, það er að segja mismuninn á þeim 19 árum sem hann áður hlaut og 21 árs dómi, sem er þyngsta fangelsisrefsing sem norsk lög leyfa,“ segir Elden lögmaður enn fremur. Hann þekkir vel til málsins en Svein Holden, verjandi Andersens, vildi ekki tjá sig um nýju grunsemdirnar við Morgunblaðið.
Nú bíður Maurud ríkissaksóknari þess að endurupptökunefnd fjalli um mál Andersens og verði úrskurður hennar jákvæður má reikna með nýrri ákæru í kjölfarið. Auk þess hefur Kristiansen stefnt Andersen til bótagreiðslu fyrir rangar sakargiftir á sínum tíma en sjálfur á hann von á líklega hæstu bótum sem norska ríkið hefur verið dæmt til að greiða einstaklingi eftir að hafa setið tuttugu ár bak við lás og slá.
NRKII (Aðstandendur stúlknanna krefjast endurupptöku)