Segir aftökur stríðsfanga áhyggjuefni

Hermenn aðstoða særðan samherja í orrustunni um Bakhmút þar sem …
Hermenn aðstoða særðan samherja í orrustunni um Bakhmút þar sem nú er hve harðast barist í Úkraínu. AFP/Aris Messinis

„Við höfum þungar áhyggjur af hópaftöku allt að 25 rússneskra stríðsfanga og óvígafærra hermanna, sem við höfum skjalfest gögn um, í höndum úkraínskra hermanna,“ sagði Matilda Bogner, yfirmaður Mannréttindavaktar Sameinuðu þjóðanna í Úkraínu, á blaðamannafundi í úkraínsku höfuðborginni Kænugarði í dag.

Segir Bogner aftökurnar gjarnan hafa farið fram jafnskjótt og úkraínskir hermenn hafi tekið stríðsfanga sína á vígvellinum. Enn fremur kvaðst hún vita til þess að úkraínsk yfirvöld hefðu hafið rannsókn á fimm tilfellum þessa sem samtals snúa að aftöku 22 rússneskra hermanna sem farið hafi fram án réttarhalda.

Wagner einnig aftökusveit

Úkraínumenn eru þó ekki einir um að vera sekir um slíkar aftökur því mannréttindavaktin kveðst hafa vitneskju um að Rússar hafi tekið fimmtán úkraínska stríðsfanga af lífi. Segir Bogner vitað að liðsmenn Wagner-málaliðasveitarinnar alræmdu, sem nú halda því fram að þeir ráði lögum og lofum í bardögunum í Bakhmút, hafi framkvæmt ellefu slíkar aftökur.

Kveður hún aftökurnar mikið áhyggjuefni, sem fyrr segir, en ásakanir hafa gengið á víxl milli Úkraínumanna og Rússa um illa meðferð stríðsfanga allar götur síðan Rússar hófu innrás sína fyrir rúmu ári.

mbl.is

Bloggað um fréttina