Stefna að sameiginlegum flugflota Norðurlandanna

Danski flugherinn mun taka F-35 orrustuþotur í notkun á þessu …
Danski flugherinn mun taka F-35 orrustuþotur í notkun á þessu ári. AFP/Bo Amstrup

Yfirmenn flugherja Svíþjóðar, Finnlands, Noregs og Danmerkur undirrituðu í síðustu viku viljayfirlýsingu um að ríkin starfræki orrustuþotur sínar í einum sameiginlegum flugflota. 

Í frétt Bloomberg um málið segir að viljayfirlýsingin um nánara samstarf ríkjanna hafi verið undirrituð hinn 16. mars síðastliðinn, en finnski og danski flugherinn hafa sent frá sér tilkynningar um hana. 

„Lokatakmarkið er að geta starfað saumlaust saman sem einn herafli með því að búa til norræna heild fyrir sameiginlegar flugaðgerðir, sem byggir á aðferðafræði NATO sem þegar er í notkun.“

Samvinna norrænu ríkjanna fjögurra mun fela í sér sameiginlega yfirstjórn, áætlanagerð og framkvæmd, sveigjanlega nýtingu á herafla, sameiginlegt loftrýmiseftirlit og þjálfun.

Norðmenn og Danir voru báðir stofnaðilar að Atlantshafsbandalaginu, og gert er ráð fyrir að Finnar verði bandalagsþjóð á næstu vikum. Svíar hafa einnig sótt um aðild að bandalaginu, og er gert ráð fyrir að hún verði staðfest á endanum, þrátt fyrir að deilur Svía við Tyrkja hafi tafið fyrir umsóknarferlinu. 

mbl.is