Tveir eru látnir, fimm er saknað og fjöldi fólks slasaður eftir að sprenging varð í súkkulaðiverksmiðju í Pennsylvaníu í gær.
Lögregla og embættismenn í bænum West Reading greina frá þessu í dag.
Einn fannst á lífi í rústum byggingar í nótt. Átta eru á sjúkrahúsi en ástand þeirra er á huldu sem stendur, að því er fréttastofa ABC hefur eftir embættismönnum.
„Björgunarfólk heldur áfram að leita að einhverjum sem gætu hafa lifað af,“ sagði bæjarstjórinn Samantha Kaag á blaðamannafundi í dag. Sú staðreynd að maður hafi fundist á lífi í nótt hefur kveikt þá von að enn geti aðrir fundist með lífsmarki.