Fyrsti fjöldafundur Trump á táknrænum stað

Forsetaframbjóðandinn Donald Trump ávarpaði stuðningsmenn sína í Waco í gær.
Forsetaframbjóðandinn Donald Trump ávarpaði stuðningsmenn sína í Waco í gær. AFP/Suzanne Cordeiro

Forsetaframbjóðandinn Donald Trump hélt sinn fyrsta fjöldafund á sögufrægum stað í Texas í Bandaríkjunum í gær.  

Hann gerði lítið úr mögulegum ákærum á hendur sér og minntist sérstaklega á rannsókn um­dæm­issak­sókn­ara Man­hatt­an vegna meintra mútu­greiðslna hans til klám­leik­kon­unn­ar Stor­my Daniels.

Trump ávarpaði nokkur þúsund stuðningsmenn sína í borginni Waco. Hann hafði áður sagt að hann byggist við um 15 þúsund manns. 

AFP/Suzanne Cordeiro

30 ár eru síðan 86 manns létust eftir að alríkisyfirvöld sátu í fimmtíu og einn dag um sértrúarsöfnuð ofstækismannsins Davids Karesh í Waco.

Eftir atburðina árið 1993 hefur Waco orðið að ákveðinni táknmynd frelsis fyrir andstæðinga afskipta stjórnvalda. Trump minntist þó ekki sérstaklega á það.

Hann sagði rannsókn saksóknarans í New York byggjast á „einhverju sem sé ekki glæpur, ekki misgjörð og ekki framhjáhald“. 

AFP/Brandon Bell

Þá sagðist hann vera fórnarlamb „stanslausra nornaveiða og falskra rannsókna“.

Trump hafði haldið því fram að hann yrði handtekinn síðasta þriðjudag en ekkert varð úr því. Í því sambandi hafði hann hvatt stuðnings­fólk sitt til mót­mæla vegna þessa og sagði þeim að „end­ur­heimta landið“ sitt.

AFP/Brandon Bell
mbl.is