Frestar frumvarpi vegna mótmæla

Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels, hefur vægast sagt átt undir högg …
Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels, hefur vægast sagt átt undir högg að sækja vegna frumvarps sem hann hefur reynt að koma í lög síðustu daga. AFP

Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels, ákvað í dag að fresta frekari áætlunum sínum um að koma umdeildu lagafrumvarpi í lög. Áætlanir ráðherrans hafa valdið miklum usla og hafa leitt til gríðarstórra mótmæla í landinu. 

Netanyahu tilkynnti þetta í ávarpi sínu fyrr í dag. „Af skilningi á þjóðarábyrgð, af vilja til að koma í veg fyrir klofning, hef ég ákveðið að gera hlé á annarri og þriðju umræði frumvarpsins til þess leyfa lengri tíma til umræðna.“

Lögregla beitti háþrýstidælum gegn mótmælendum.
Lögregla beitti háþrýstidælum gegn mótmælendum. AFP

Fyrirhugaðar breytingar myndu skerða vald hæstaréttar Ísraels og veita stjórnmálamönnum aukið vald við val á dómurum. Löggjöfin verður, að sögn Netanyahu, tekin fyrir á næsta þingi sem hefst í seinni hluta apríl.

Ummæli hans komu degi eftir að hann hafði vísað varnarmálaráðherra landsins úr embætti, Yoav Gallant, sem kallaði eftir því að stöðva löggjafarferlið vegna áhyggna um þjóðaröryggi.

Yoav Gallant, fráfarandi varnarmálaráðherra Ísraels.
Yoav Gallant, fráfarandi varnarmálaráðherra Ísraels. AFP

Fyrr í dag gerði Isaac Herzog, forseti Ísraels, svipaða kröfu og Gallant. Tugþúsundir mótmælenda söfnuðust saman nálægt þinginu í Jerúsalem eftir verkfallsyfirlýsinguna.

Suttu eftir að Netanyahu hafði tilkynnt hléið, var endir bundinn á verkföllin í landinu. Um 80.000 mótmælendur tóku þátt í mótmælunum í Jerúsalem. Flugferðir voru truflaðar og ísraelska læknafélagið hafði gengið til liðs við verkfallsboðunina, sem hafði áhrif á opinber sjúkrahús, þó að það segði að neyðaraðstoð yrði ekki felld niður.

Mótmælendur hafa mánuðum saman sagt umbótaáformin vera ógn við lýðræði í landinu.

„Bersýnileg ógn“

Áætlanir stjórnvalda hafa vakið áhyggjur bandamanna Ísraels, þar á meðal Bandaríkjamanna en bandarísk stjórnvöld fagna hléi Netanyahus og kalla það „tækifæri til að skapa frekari tíma og rými fyrir málamiðlanir“.

Yair Lapid, leiðtogi ísraelsku stjórnarandstöðunnar, sagði að hann væri reiðubúinn til að taka þátt í viðræðum um fyrirhugaðar breytingar, „ef löggjöfin stöðvast sannarlega og algjörlega“.

Fyrrum varnarmálaráðherrann Benny Gantz, leiðandi stjórnarandstæðingur, sagðist strax vera tilbúinn í viðræður fyrir milligöngu Herzog. „Betra seint en aldrei,“ sagði Gantz.

Frá mótmælum í dag.
Frá mótmælum í dag. AFP

Ríkisstjórnin hefur haldið því fram að breytingarnar séu nauðsynlegar til að koma á jafnvægi á milli valds milli þingmanna og dómskerfisins.

Yoav Gallant, fráfarandi varnarmálaráðherra, sem hafði verið traustur bandamaður Netanyahus, sagði frumvarpið vera „bersýnileg ógn við öryggi Ísraels“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert