22 milljónum ríkari eftir óvæntan fund

Ekki er allt gull sem glóir, en menn geta þó …
Ekki er allt gull sem glóir, en menn geta þó vissulega dottið í lukkupottinn endrum og eins. Mynd úr safni. Ljósmynd/Colourbox

Ástrali datt í lukkupottinn þegar hann fann 4,6 kg hnullung sem var fullur af gulli sem metið er á um 240.000 ástralska dali, sem jafngildir um 22 milljónum kr. 

Maðurinn, sem vill ekki koma undir nafni, notaði ódýrt málmleitartæki við leit í Victoriu-ríki í Ástralíu, en maðurinn leitaði á þekktu svæði sem var miðpunktur ástralska gullæðisins á nítjándu öld. 

Darren Kamp, sem skoðaði grjótið og verðmat, segir í samtali við breska ríkisútvarpið að þetta sé stærsti hnullungur úr gulli sem hann hafi séð á sínum 43 ára ferli. 

„Ég varð steinhissa. Þetta er eitthvað sem gerist bara einu sinni á ævi.“

Kamp veitti því ekki mikla eftirtekt þegar maður með stóran bakpoka gekk í verslun hans í Geelong, sem er í um klukkustundarfjarlægð suðvestur af borginni Melbourne. Fólk kemur reglulega inn í verslunina með glópagull eða aðra steina sem líta út fyrir að vera gullmolar en eru það ekki.  

„Þessi maður náði í steininn og þegar hann rétti mér hann þá sagði hann: „Heldurðu að þessi sé um 10.000 [ástralskra] dala virði?““

„Ég horfði á hann og sagði: „Segjum frekar 100.000.““

Það kom svo í ljós að í steininum voru alls 83 únsur, sem samsvarar um 2,6 kg, af gulli.

Kamp keypti af honum steininn og gullgrafarinn kvaðst ætla að nýta peningana til að gleðja fjölskylduna. „Eiginkonan mun svo sannarlega gleðjast,“ sagði gullleitarmaðurinn fundvísi.
mbl.is