38 manns létust í eldsvoða

Fyrir utan varðhaldsstöðina í Ciudad Juárez á mánudagskvöld. Slökkviliðsmenn og …
Fyrir utan varðhaldsstöðina í Ciudad Juárez á mánudagskvöld. Slökkviliðsmenn og hermenn hlúa að særðu farandsfólki á vettvangi. AFP/Herika Martinez

Myndskeið af eldsvoða í varðhaldsstöð fyrir farandfólk í Ciudad Juárez í Mexíkó hefur valdið mikilli reiði í landinu. Að minnsta kosti 38 manns létust í eldsvoðanum sem varð á mánudag. 

Talið er að um 28 aðrir hafi særst í eldsvoðanum. Fólkið var frá Gvatemala, Hondúras, Venesúela, El Salvador, Kólumbíu og Ekvador.

Virðist sem svo að fest hafi verið á filmu augnablikið þegar eldurinn kviknaði og í því virðast einkennisklæddir menn ganga á bak við það sem virðist vera læstur klefi. 

Mennirnir í klefanum reyna að opna klefann án árangurs og reykurinn fer hratt um rýmið. Veita einkennisklæddu mennirnir þeim enga björg. 

Eldsvoðinn varð í varðstöð fyrir farandfólk sem rekin er af Útlendingastofnun Mexíkó. 

38 manns hið minnsta létust í eldsvoðanum.
38 manns hið minnsta létust í eldsvoðanum. AFP/Herika Martinez

Farið víða á samfélagsmiðlum

Myndskeiðið er 32 sekúndna langt og virðist fengið úr eftirlitsmyndavélum í varðhaldsstöðinni sem er rétt sunnan við landamæri Mexíkó að Texas-ríki í Bandaríkjunum. Var því hlaðið upp á samfélagsmiðla á þriðjudagskvöld og hefur það farið víða.

Innviðaráðherra Mexíkó var spurður hvort myndskeiðið væri í raun fá eldsvoðanum í varðhaldsstöðinni og sagðist ekki geta neitað því né staðfest. 

Hljóð fylgir ekki myndskeiðinu svo óljóst er hvað og hvort eitthvað gekk mannanna á milli. Þá er ekki ljóst hvað einkennisklæddu mennirnir eru að gera í myndskeiðinu. 

Fengu ekki dvalarleyfi

Á mánudag sagði Andrés Manuel López Obrador, forseti Mexíkó, að farandmenn hefðu kveikt í dýnu þegar ljóst var að þeim yrði ekki veitt dvalarleyfi. Í dag kallaði hann svo eftir því að málið yrði rannsakað ítarlega. 

„Við munum ekki fela neitt og það verður ekkert refsileysi,“ sagði forsetinn í ræðu sinni í dag.

Andrés Manuel López Obrador, forseti Mexíkó.
Andrés Manuel López Obrador, forseti Mexíkó. AFP/Rodrigo Arangua

Aðstandendur þeirra sem létust í eldsvoðanum sem og fleiri hafa gagnrýnt viðbrögð ríkisstjórnarinnar harðlega. Þá hafa þeir staðið fyrir mótmælum fyrir utan varðhaldsstöðina. 

Skömmu eftir eldsvoðann gekk erfiðlega fyrir aðstandendur að komast í samband við fólkið sitt eða að fá staðfest hvort viðkomandi ættingi hafi látist í eldsvoðanum. 

Ciudad Juárez er hinum megin við El Paso í Texas en stríður straumur hefur verið af flóttafólki yfir landamærin. Í hverjum mánuði reyna um 200 þúsund manns að komast yfir landamærin. Mörg hver á flótta frá fátækt og ofbeldi í ríkjum Mið- og Suður-Ameríku.  

Fórnarlamba eldvoðans hefur verið minnst fyrir utan varðhaldsstöðina frá því …
Fórnarlamba eldvoðans hefur verið minnst fyrir utan varðhaldsstöðina frá því á mánudag. Þá hafa stjórnvöld sætt gagnrýni fyrir fyrstu viðbrögð sín eftir eldsvoðann. AFP/Guillermo Arias
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert