Fækkar í hópi mótmælenda

Maður á hjólabretti reynir að gera svokallað „kickflip“ yfir ruslahaug …
Maður á hjólabretti reynir að gera svokallað „kickflip“ yfir ruslahaug sem liggur í ljósum logum. AFP

Um 740 þúsund manns í Frakklandi mótmæltu frumvarpi Emmanuels Macrons, forseta landsins, í gær. Fækkað hefur í hópi mótmælenda á milli vikna, en á fimmtudag í síðustu viku gekk rúmlega milljón manns götur borga í Frakklandi. 

Átök brutust út á milli mótmælenda og lögreglu í gær. 

Í gær var tíundi dagurinn frá því um miðjan janúar sem mótmælt er á götum Frakklands vegna lagabreytinganna sem fela í sér að eftirlaunaaldur verði hækkaður úr 62 árum í 64.

Um 13.000 lögreglumenn voru sendir á vettvang um allt land en síðastliðinn fimmtudag urðu ein harkalegustu átök sem hafa átt sér stað milli mótmælenda og öryggissveita.

Franska lögreglan hefur verið sökuð um að beita óhóflega miklu afli og hefur það ýtt enn frekar undir reiði mótmælenda.

Í austurhluta Parísar beitti lögregla táragasi og setti af stað sprengjuárás eftir að nokkrir mótmælendur, svartklæddir með svartar andlitsgrímur, brutust inn í matvöruverslun og kveiktu eld þegar mótmælagöngum var lokið á torginu Place de la Nation.

Að sögn lögreglu voru að minnsta kosti 27 manns handteknir í höfuðborginni síðdegis í gær.

Lögreglusveitir standa vörð um torgið Place de la Nation í …
Lögreglusveitir standa vörð um torgið Place de la Nation í Paris. AFP

Lögregla beitti táragasi

Mótmælendur eru sagðir hafa valdið töfum á lestarstöðinni við Gare de Lyon, sem er ein fjölfarnasta lestarstöð Parísarborgar. Mótmælendur eru sagðir hafa gengið á lestarteinunum og kveikt í blysum. Þetta hafi verið gert til þess að sýna samstöðu með starfsmanni lestarkerfisins sem hafði misst auga í fyrri mótmælum.

AFP

Í borginni Nantes, sem staðsett er í vesturhluta landsins, köstuðu mótmælendur aðskotahlutum í öryggissveitir sem beittu síðan táragasi til baka. Kveikt var í banka og ruslafötum víða um borgina.

Lögreglan beitti háþrýstidælum gegn mótmælendum í borginni Lyon og táragasi gegn mótmælendum í borginni Lille eftir að þeir ollu skemmdum, meðal annars með því að brjóta strætisvagnabiðstöð.

Slökkvilið hefur þurft að slökkva ýmsa elda í borgini. Hér …
Slökkvilið hefur þurft að slökkva ýmsa elda í borgini. Hér má sjá slökkvilið slökkva eld sem myndast hefur í ruslahaug. Í glugga slökkviliðsbílsins stendur „gegn eftirlaunafrumvarpinu“. AFP

Sorpið verði hirt af götunum

Sorphirðumenn í París fresta frá og með miðvikudeginum þriggja vikna verkfalli sem staðið hefur yfir í þrjár vikur, þar sem þúsundir tonna af sorpi hafa safnast á götum borgarinnar, að sögn verkalýðsfélags CGT en þar er einnig sagt að aðgerðin væri til þess að gera launafólki kleift að „fara í verkfall aftur, enn harðar“.

Nærri tveimur vikum eftir að Macron þvingaði nýju lífeyrislögin í gegnum þingið með sérstöku ákvæði hafa verkalýðsfélögin heitið því að láta ekkert undan  í fjöldamótmælum til þess að fella ríkisstjórnina.

Heimsókn Karls þriðja, Bretakonungs til Frakklands, sem átti að hefjast síðasta sunnudag, var frestað vegna ástandsins í landinu.

Hlaupahjól í ljósum logum.
Hlaupahjól í ljósum logum. AFP
mbl.is