Sundmenn áreittu höfrunga

Lögregla í Havaí rakst á hóp fólks sem synti of …
Lögregla í Havaí rakst á hóp fólks sem synti of nálægt höfrungahjörð við Honaunau-flóa. AFP

Yfirvöld á Havaí rannsaka hóp sundmanna sem sakaður er um að hafa „áreitt“ höfrunga við eyjuna. Frá þessu greinir breska ríkisútvarpið.

Afar vinsælt er meðal ferðamanna á Havaí að synda meðal höfrunga en bannað er með lögum að synda innan 45 metra við hjörð trjónuskoppara, sem er tegund höfrunga.

Yfirvöld í Havaí sögðu að eftirlitsaðilar hafi komið auga á 33 sundkappa í Honaunau-flóa á sunnudaginn. Einnig hefur myndefni úr dróna verið birt en á myndbandinu mátti sjá fólkið færa sig í átt að höfrungunum á meðan dýrin syntu í burtu.

Í yfirlýsingu frá lögreglunni í Havaí kemur fram að fólkið „virtist vera að elta, króa af og áreita hjörðina af ákefð“.

Lög sem banna slíkt athæfi tóku fyrst gildi árið 2021 til þess að vernda höfrungana að degi til og til þess að tryggja að „þeir fái að vera ótruflaðir í skjóli á hvíldarstað sínum,“ að sögn bandarísku sjávar- og loftslagsstofnunarinnar NOAA.

Lögin gilda meðal annars um höfrunga af skopparaætt sem eru innan við tvo kílómetra frá ströndum stærstu eyja Havaí. Reglan á einnig við um báta, kanóa og dróna.

Lögreglumenn höfðu samband við fólkið á meðan það var í sjónum og tilkynntu að það væri að brjóta af sér. Sameiginleg rannsókn ríkissaksóknara og ríkisins á atvikinu hefur nú verið sett af stað.

mbl.is