Donald Trump ákærður fyrstur forseta

Donald Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseti.
Donald Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseti. AFP/Chandan Khanna

Ákærudómstóll á Manhattan ákvað í kvöld að ákæra Donald Trump, fyrrverandi forseta Bandaríkjanna. Verið var að rannsaka hann í tengslum við mútugreiðslur til klámleikkonunnar Stormy Daniels frá árinu 2016.

Þessu greinir CNN frá og segist hafa eftir þremur heimildum sem þekki vel til málsins. 

Það hefur aldrei áður gerst í sögu Bandaríkjanna að fyrrverandi forseti fái á sig ákæru.

Fyrr í marsmánuði lýsti Trump því yfir að hann byggist við því að verða handtekin á næstu dögum. Hann hvatti stuðningsfólk sitt til þess að mótmæla þessari aðför gegn sér. Stuttu eftir að Trump greindi frá mögulegri handtöku lýstu hinir ýmsu Repúblikarnar óbeint yfir stuðningi við  hann á meðan að málið myndi ganga yfir. Þá sögðu margir þeirra um­dæm­issak­sókn­ar­ann Í Manhattan, Alvin Bragg, ganga er­inda Demó­krata­flokks­ins með afli rík­is­ins.

Talið var að rannsókn ákærudómstólsins snerist um það að Trump hefði beðið lögmann sinn um að greiða klámleikkonunni Stormy Daniels, réttu nafni Stephanie Clifford, um 18 milljónir króna árið 2016. Það hefði hann gert til þess að hún segði ekki frá ástarsambandi þeirra í aðdraganda forsetakosninganna þetta sama ár.

Trump hef­ur neitað því staðfast­lega að hafa átt í nokk­urs­kon­ar sam­bandi við Clifford.

Í kjölfar ákærunnar hefur fyrrverandi lögmaður Trump, Michael Cohen, lýst því yfir að niðurstaða ákærudómstólsins sýni að enginn sé yfir lög hafinn, „ekki einu sinni fyrrverandi forseti.“

Árið 2019 játaði Cohen því, fyrir framan eft­ir­lits­nefnd­ full­trúa­deild­ar Banda­ríkjaþings, að hafa greitt Daniels, í umboði Trump fyrir að halda sambandi þeirra leyndu.

Í yfirlýsingu sinni vegna málsins segist Cohen ekki stoltur af því að þurfa að tjá sig um málið. Þá sé Trump saklaus uns sekt sé sönnuð.

„Að þessu sinni vil ég segja tvennt. Ábyrgð skiptir máli og ég stend við vitnisburð minn og þau sönnunargögn sem ég hef veitt saksóknaranum í New York,“ segir í yfirlýsingunni.

New York Times greinir frá því að ekki sé enn ljóst hverjir nákvæmir ákæruliðir málsins séu en það komi í ljós á næstu dögum. Þeir verði ljósir þegar Trump verði færður fyrir dóm. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert