Fundinn sekur um að myrða stúlkuna

Oliviu Pratt-Korbel varð ekki lengra lífs en níu ára auðið.
Oliviu Pratt-Korbel varð ekki lengra lífs en níu ára auðið. Ljósmynd/Úr einkasafni

Hálffertugur karlmaður, Thomas Cashman, var í dag fundinn sekur um að hafa skotið Oliviu Pratt-Korbel, níu ára gamla, til bana á heimili hennar í Dovecot í bresku borginni Liverpool 22. ágúst í fyrra auk þess að særa móður hennar. Þegar atburðurinn átti sér stað veitti Cashman öðrum manni, Joseph Nee, eftirför vegna óuppgerðra mála þeirra á milli.

Nee þessi er dæmdur fíkniefnasali og innbrotsþjófur og var hann staddur utan við heimili mæðgnanna á flótta sínum undan Cashman. Móðir Oliviu, Cheryl Korbel, opnaði útidyrnar þegar hún varð vör við hreyfingu fyrir utan og leitaði Nee þá þegar inngöngu.

Korbel reyndi að hefta för hans og þegar Cashman kom þar að hleypti hann af skotvopni sem hann bar, særði kúlan móðurina á úlnlið áður en hún hæfði Oliviu litlu í brjóstið og varð það hennar banasár en stúlkan hafði komið hlaupandi niður af annarri hæð hússins við atganginn í forstofunni.

Réttarhöldin stóðu í þrjár vikur og neitaði ákærði staðfastlega sök, kvaðst hafa verið í heimsókn hjá vini sínum þegar skotárásin var gerð, áður en kviðdómur komst að þeirri niðurstöðu að sekt hans væri hafin yfir skynsamlegan vafa. Við réttarhöldin kom fram að Nee og fjölskylda hans ættu sér óvildarmenn og hefði þetta ekki verið fyrsta skotárásin þar sem hann var skotmarkið.

Dómur yfir Cashman verður kveðinn upp á mánudaginn.

BBC

Sky News

The Guardian

mbl.is