Geta haft mikla áhættu í för með sér

Elon Musk.
Elon Musk. AFP/Jim Watson

Elon Musk og hópur sérfræðinga hafa hvatt tækniheiminn til að gera hlé á þróun öflugra gervigreindarkerfa til að hægt sé að ganga úr skugga um að þau séu örugg.

Þetta kemur fram í opnu bréfi sem meðal annars Musk og Steve Wozniak, stofnandi Apple, undirrita ásamt meira en 1.000 sérfræðingum í tækni- og upplýsingageiranum.

Mun öflugri útgáfa en ChatGPT

Tilefnið er útgáfa GPT-4 frá fyrirtækinu OpenAI sem Microsoft stendur á bak við. Nýja útgáfan er samkvæmt fyrirtækinu mun öflugri en sú fyrri sem notuð var til að knýja ChatGPT, gervigreind sem er fær um að búa til alls kyns texta með einföldum skipunum og leiðbeiningum.

„Gervigreindarkerfi með mannlega samkeppnisgreind getur haft í för með sér mikla áhættu fyrir samfélagið og mannkynið. Öflug gervigreind kerfi ætti að þróa aðeins þegar við erum fullviss um að áhrif þeirra verði jákvæð og áhætta þeirra verði viðráðanleg,“ sagði í bréfinu sem ber yfirskriftina „Stöðvum risastórar gervigreindartilraunir“

Musk var einn af fyrstu fjárfestum OpenAI og sat lengi í stjórn félagsins. Bílaframleiðandi Musk, Tesla, þróar gervigreindarkerfi meðal annars til að fullkomna sjálfkeyrandi tækni.

Bréfið var einnig undirritað af mörgum gagnrýnendum og keppinautum OpenAI eins til að mynda Emad Mostaque, forstjóra Stability AI.

mbl.is