Iðunn Andrésdóttir
Björgunarskipið M.V. Louise Michel hefur verið kyrrsett á ítölsku eyjunni Lampedúsa eftir að hafa óhlýðnast fyrirmælum ítalskra yfirvalda varðandi björgunaraðgerðir á flóttafólki. Hekla María Friðriksdóttir, stjórnarmaður í samtökum sem reka skipið, ræddi við mbl.is um málið.
Skipið er nefnt eftir franska anarkistanum Louise Michel og sinnir björgunarstörfum á fólki á flótta í Miðjarðarhafi. Starfsemi bátsins byggir á gildum gegn kynþáttafordómum og fasisma. Skipið er auðþekkjanlegt en það er bleikt á lit og skartar Banksy listaverki á hliðinni, en listamaðurinn fjármagnar verkefnið.
1/2🔴#LouiseMichel blocked for 20 days after multiple rescues. On Saturday morning 180 people disembarked on Lampedusa after four rescue operations. The Crew had responded earlier to several Mayday relay calls from a Frontex aircraft about people in immediate need of assistance. pic.twitter.com/RnMbg4It01
— LouiseMichel (@MVLouiseMichel) March 27, 2023
Louise Michel ásamt áhöfn þess eru nú kyrrsett á Lampedúsa í 20 daga, en það eru refsiaðgerðir yfirvalda, eftir að skipið sinnti fjórum björgunum í einni siglingu.
„Það voru um 180 manns sem var bjargað, og aðstæður um borð eru ekki boðlegar til lengri tíma“ segir Hekla. Hán segir samtökin hyggjast áfrýja ákvörðun yfirvalda, þar sem þau telji sig hafa sinnt skyldu sinni í samræmi við alþjóðleg hafréttarlög.
Hekla er ekki um borð á skipinu í þetta sinn, en er í daglegum samskiptum við áhöfnina og aðra stjórnarmenn.
Louise Michel framkvæmdi í síðustu viku fjórar björgunaraðgerðir þar sem mikið af fólki hafði endað í sjónum. Meðal annars voru móðir og ungabarn ásamt öðrum einstaklingi mjög illa haldin þegar skipið kom á vettvang, og missti barnið meðvitund á tímapunkti. Öll voru flutt með sjúkraflutningi í hraði.
Ítalska landhelgisgæslan var að sögn Heklu fyrri til á vettvang, en hafi hins vegar haldið kyrru fyrir og fylgst með fólkinu í vatninu úr fjarlægð. Þau hafi á endanum stigið inn, eftir 37 mínútur, og veitt aðstoð þegar áhöfn Louise Michel var að ljúka björgunaraðgerðum.
Hán segir mikið að gera í Miðjarðarhafinu og því sé það að vera kyrrsett enn erfiðara fyrir áhöfnina. „Það er mikið af bátum og búið að vera mikið af sjóslysum að undanförnu“ segir Hekla.
„Það situr rosalega í okkur að vera kyrrsett í höfn, í Lampedúsa, þegar við gætum verið að aðstoða fólk tiltölulega stuttu frá.“. segir Hekla og bætir við að þess væri óskandi að hjálparsamtök þyrftu ekki að sinna slíkum störfum, en að landhelgisgæsla Ítalíu og Möltu standi sig einfaldlega ekki í stykkinu.
Hekla bætir við að fyrst og fremst væri hægt að fyrirbyggja ástandið í Miðjarðarhafinu með því að tryggja löglegar og öruggar leiðir til að sækja um hæli í Evrópu. „Á meðan það eru engar löglegar leiðir færar, þá mun fólk alltaf reyna að komast yfir því það er að flýja eitthvað. Fólk er ekki að skella sér í skemmtisiglingu til að skoða Evrópu.“