Pistorius situr áfram

Pistorius í Hæstarétti í júní 2016. Hann mun áfram sitja …
Pistorius í Hæstarétti í júní 2016. Hann mun áfram sitja í fangelsi, að minnsta kosti ár, en þá má hann sækja um reynslulausn á ný. AFP/Phill Magakoe

Hlauparanum Oscari Pistorius var synjað um reynslulausn í dag úr afplánun sinni í Pretoria í Suður-Afríku en nú eru sex ár liðin síðan hann hlaut þrettán ára og fimm mánaða dóm árið 2017 fyrir að skjóta unnustu sína, Reevu Steenkamp, til bana á heimili þeirra árið 2013.

Komst reynslulausnanefnd að þeirri niðurstöðu að synja umsókn hlauparans fatlaða eftir að hafa farið yfir feril hans í fangelsinu, hegðun, námskeið sem hann hefur setið og fleira, en raunin er sú að hann hefur enn ekki afplánað þann lágmarkstíma sem þarf til að geta hlotið reynslulausn. Nú býðst honum að leggja inn nýja umsókn að ári liðnu.

Móðir Steenkamp var viðstödd í fangelsinu þegar nefndin kvað upp úrskurð sinn og sagði dvölina í sama herbergi og Pistorius hafa tekið á taugarnar. Sagði hún við fjölmiðla að hann sýndi enga iðrun og lýsti því yfir að hún hefði aldrei trúað skýringu hans á vígi Steenkamp sem hann kvað hafa verið slys. Sagðist hann hafa talið innbrotsþjófa vera á ferð á heimilinu en hann skaut unnustu sína gegnum baðherbergishurð sem hún hafði læst að sér.

mbl.is