Stormur í glasi Trumps

Stormy Daniels skálaði í kampavíni í gær eftir að Trump …
Stormy Daniels skálaði í kampavíni í gær eftir að Trump var ákærður vegna mútugreiðslu til klámmyndaleikonunar. AFP

Stormy Daniels skálaði í kampavíni eftir að ákæra var lögð á hendur Donald Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseta. Ákæru­dóm­stóll á Man­hatt­an ákvað í gærkvöldi að ákæra Trump í tengslum við meintar mútugreiðslur til Daniels. 

Daniels, sem heitir réttu nafni Stephanie Clifford, birti tíst í kjölfarið á Twitter þar sem hún þakkaði stuðningsfólki sínu. „Takk fyrir allan stuðninginn og ástina! Ég fæ svo mörg skilaboð að ég næ ekki að svara þeim... enda vil ég ekki sulla kampavíninu mínu niður,“ sagði Daniels og bætti við að pöntunum á eiginhandaráritunum og varningi hennar rigndi inni.

Trump kvæntur þegar sambandið átti sér stað

Daniels og Trump hittust árið 2006 á golfmóti á Mar-a-Lago og stunduðu kynlíf einu sinni, að sögn Daniels, sem er klámmyndaleikkona. Á tímanum sem þetta meinta ástarsamband átti sér stað hafði Trump verið kvæntur konu sinni Melaniu í eitt ár og sonur þeirra Byron var aðeins mánaðargamall. 

Daniels hafði samband við nokkra fjölmiðla í aðdraganda forsetkosninganna árið 2016, til að greina frá sambandinu við Trump. Trump og lögfræðingar hans greiddu henni í kjölfarið 130.000 bandaríkjadali, eða um 18 milljónir króna. 

Greiðslan í sjálfu sér ekki ólögleg

Greiðslan til Daniels er ekki ólögleg í sjálfu sér, en þegar Trump endurgreiddi lögfræðingi sínum fyrir að greiða Daniels, var greiðslan merkt sem lögfræðikostnaður. Segir saksóknari glæpinn því vera fölsun á viðskiptaskrá, sem sé refsiverður glæpur í New York-ríki, að því er BBC greindi frá. 

Einnig brýtur það mögulega í bága við kosningalög, þar sem Trump er sakaður um að hafa greitt Daniels fyrir þögn hennar, til að meint ástarsamband þeirra myndi ekki skaða fylgi hans í kosningunum.

Í upphafi þvertóku Trump og lögfræðingur Michael Cohen hans fyrir bæði ástarsambandið og greiðslurnar, en Cohen hefur nú játað að hafa greitt Daniels fyrir þögn hennar samkvæmt fyrirmælum Trumps. Sjálfur neitar Trump því að hafa átt í ástarsambandi við Daniels. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert