Hyggst ekki sýna konunum miskunn

Mótmælandi heldur á lofti mynd af Mahsa Jina Amini sem …
Mótmælandi heldur á lofti mynd af Mahsa Jina Amini sem lést í haldi siðgæðislögreglunnar. AFP/Ozan Kose

Forseti Írans hefur ítrekað að konur séu skyldugar samkvæmt landslögum til að hylja sig með höfuðklút. Innanríkisráðuneytið hefur hótað að bjóða þeim konum byrginn sem brjóta gegn lögunum. 

Nýlega gekk maður upp að mæðgum í verslun í landinu og hellti yfir þær jógúrti. Ástæðan var sú að þær voru ekki með höfuðklút.

Reuters greinir frá því að handtökuskipun hafi verið gefin út á hendur manninum, og mæðgunum fyrir það að bera ekki höfuðklút.

Forseti Írans, Ebrahim Raisi á blaðamannafundi 22. september. Mynd úr …
Forseti Írans, Ebrahim Raisi á blaðamannafundi 22. september. Mynd úr safni. AFP/Ed Jones

Sjást víða án höfuðklúta

Síðustu mánuði hafa konur í Íran mótmælt harðlega löggjöf landsins og framgangi siðgæðislögreglunnar. Þetta gerist í kjölfar þess að 22 ára stúlka að nafni Mahsa Jina Amini lét lífið í haldi siðgæðislögreglunnar í september.

Hún var handtekin fyrir það að bera höfuðklút sinn á óviðeigandi máta.  

Tugþúsundir hafa mótmælt í landinu síðan að Amini lést. Konur sjást nú víða um landið án höfuðklúta en með því eiga þær það á hættu að vera handteknar.

Skylda samkvæmt lögum

Í dag tjáði Ebrahim Raisi, forseti Íran, sig um jógúrtatvikið. Hann sagði gott að fólk reyndi að sannfæra þá sem trúðu ekki á burð klútanna til þess að gera það. Mestu máli í þessu samhengi skipti þó að lögin kveði á um að konur þurfi að bera höfuðslæður. 

Þá hafa íranskir miðlar greint frá því að dómsmálaráðherra landsins ætli ekki að sýna miskunn og hyggst ákæra konur sem klæðast ekki höfuðklút á almannafæri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert