Skipuleggjandi hryðjuverka í Evrópu drepinn

Myndin tengist fréttinni ekki beint.
Myndin tengist fréttinni ekki beint. AFP/Zaid al-Obeidi

Bandaríski herinn greindi frá því í morgun að háttsettur leiðtogi hryðjuverkasamtakanna Ríki íslams hafi verið drepinn í árás hersins í Sýrlandi í gær.

Maðurinn hét Khalid Aydd Ahmad al-Jabouri og skipulagði hryðjuverk samtakanna í Evrópu.

Í yfirlýsingu hersins kom ekki fram hvar í Sýrlandi árásin varð en enga almenna borgara sakaði. 

Hryðjuverkasamtökin eru enn starfandi þó að liðsmenn þeirra hafi hrökklast frá síðasta yfirráðasvæði sínu í Sýrlandi árið 2019. 

Herforinginn Michael Kurilla segir að Ríki íslams hafi enn burði til að gera árásir utan Mið-Austurlanda. 

Mun hafa tímabundin áhrif á starfsemi samtakanna

Í yfirlýsingu hersins sagði að al-Jabouri hafi þróað stjórnarskipulag samtakanna og að dauði hans muni hafa tímabundin áhrif á getu samtakanna til að skipuleggja árásir. 

Árið 2019 lést Abu Bakr al-Bag­hda­di, fyrr­um leiðtogi sam­tak­anna, er bandarískir sérsveitarmenn eltu hann uppi.

Íslamska ríkið stóð meðal annars að baki hryðjuverkunum í París í nóvember árið 2015 þar sem 130 létust og í Nice í júlí árið 2016 er 86 létu lífið. 

Um 900 bandarískir hermenn eru starfandi í Sýrlandi, flestir í héruðum Kúrda í norðausturhluta landsins. 

mbl.is