Íbúar Hokkaido leituðu skjóls vegna eldflaugar

Frá eldflaugaskoti Norður-Kóreu. Mynd úr safni.
Frá eldflaugaskoti Norður-Kóreu. Mynd úr safni. AFP

Yfirvöld í Japan fyrirskipuðu íbúum á eyjunni Hokkaido, nyrstu eyju japanska eyjaklasans, að leita skjóls seint í kvöld að íslenskum tíma.

Búist var við að eldflaug frá Norður-Kóreu myndi þá lenda á eða við eyjuna innan nokkurra mínútna.

„Rýmið undir eins. Rýmið undir eins,“ sagði í tilkynningu ríkisstjórnarinnar, þar sem íbúum var einnig sagt að leita skjóls í byggingum eða neðanjarðar.

Uppfært:

Japanska landhelgisgæslan segir eldflaugina nú hafa hafnað í hafinu undan ströndum landsins.

Loftvarnaflautur ómuðu

Klukkan var um 8 að morgni að staðartíma í Japan, eða um 23 að kvöldi hér á Íslandi, þegar viðvörunin var send út.

Upptökur af loftvarnaflautum á eyjunni tóku í kjölfarið að berast.

mbl.is