Skipuleggjandi Kabúl sprengingarinnar sagður látinn

Kabúl féll í hendur talibana í ágúst 2021.
Kabúl féll í hendur talibana í ágúst 2021. AFP/ Wakil Kohsar

Hvíta húsið hefur lýst því yfir að sá, innan ISIS-Khorasan samtakanna, sem hafi borið ábyrgð á og skipulagt sjálfsmorðssprenginguna á flugvellinum í Kabúl þann 26. ágúst 2021 hafi verið ráðinn af dögum.

Þessu greinir CNN frá.

Samkvæmt BBC var ISIS-Khorasan-liðinn drepinn af talibönum fyrir nokkrum vikum síðan en nauðsynlegt hafi verið að staðfesta andlát hans áður en það væri tilkynnt.

Ekki er ljóst hvort að maðurinn hafi verið skotmark talibana eða hvort að hann hafi verið drepinn í viðvarandi átökum á milli talibana og ISIS-Khorasan á svæðinu.  

Sjálfsmorðssprengjan árið 2021 var sprengd í mikilli mannmergð á flugvellinum í Kabúl í Afganistan, stuttu áður en Bandaríkjamenn luku við að flytja herlið sitt þaðan. Ríflega 170 létu lífið í sprengingunni.

Í umfjöllun BBC kemur fram að Bandaríkin hafi hafist handa við að láta aðstandendur hermanna, sem létu lífið í sprengingunni árið 2021 vita af andláti mannsins, í gær.

Nafn mannsins hefur ekki verið opinberað. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert