Segjast hafa stöðvað banatilræði við Pútín

Rússnesk stjórnvöld segjast hafa skotið niður tvo árásardróna sem beint var gegn híbýlum forsetans Vladimírs Pútín í Kreml. Í yfirlýsingu Kremlar er fullyrt að um hafi verið að ræða banatilræði hryðjuverkamanna gegn forsetanum.

Í yfirlýsingunni er árásin sögð hafa verið gerð í nótt. 

Drónarnir hafi verið teknir úr umferð og leifar þeirra fallið innan veggja Kremlar, en ekki valdið neinu líkamstjóni.

Blaðamaður Financial Times í Moskvu deilir eftirfarandi myndskeiðum sem sögð eru sýna frá atvikinu.

Bann lagt við drónaflugi

Fullyrt er að þetta hafi verið „aðgerð hryðjuverkamanna og banatilræði við forseta rússneska sambandsríkisins“.

Dmitrí Peskov, talsmaður Kremlar, segir Pútín að störfum í bústað sínum í Moskvu og að hann muni taka þátt í skrúðgöngunni sem fyrirhuguð er í næstu viku til minningar um sigur Rússa í heimsstyrjöldinni síðari.

Borgarstjórinn hefur í kjölfar þessa lagt bann við drónaflugi án leyfis yfir höfuðborginni.

Fregnirnar berast á sama tíma og Úkraínumenn búa sig undir gagnsókn á vígstöðvunum í austurhluta landsins.

Rússneski fáninn blaktir við einn turna Kremlar.
Rússneski fáninn blaktir við einn turna Kremlar. AFP
mbl.is